Fleiri og stærri geitungabú en áður

16.07.2017 - 14:45
„Þetta er á stærð við barnshöfuð, ég held að þau gerist varla stærri. Við erum að tala um bú sem geta innihaldið svona 800-850 stykki,“ segir Steinar Smári Guðbergsson, meindýraeyðir. Geitungatímabilið er nú hafið en geitungarnir verða viðskotaverri undir lok sumars, eftir að drottningin deyr segir Steinar.

Aðeins verið stunginn einu sinni

Hvert geitungabú endist aðeins eitt sumar og er byggt upp af drottningu sem fædd er sumarið áður. „Hvert bú er einnota, þetta er bara eins og einnota vettlingur,“ segir Steinar. Þegar drottningin vaknar úr dvala um vorið hefst hún handa við að finna hentugan stað og efni fyrir nýtt bú, en í það nota þær fúa af gömlum spýtum eða föllnum trjágreinum, og eru búin því gjarnan staðsett nálægt fúnum við. „Hún skrælir þetta í raun af spýtunni. Það er hægt að sjá það vel á spýtunni, eins og hún sé rispuð.“

Mynd með færslu
 Mynd: S. Rae  -  Flickr
Dolichovespula norwegica, eða trjágeitungur

„Ég er með svona spes græju, sem er með nál á endanum sem ég sting inn í búið og fylli af eitri, og þeir deyja allir samstundis inni í búinu,“ segir Steinar, sem hefur marga fjöruna sopið í þessum bransa en kannast samt ekki við að geitungarnir séu mikið að stinga hann. „Ég hef einu sinni verið stunginn. Ég hef heyrt að margir meindýraeyðar séu stungnir ansi oft en ég held að þeir séu bara háðir því,“ segir Steinar og bætir við að hann kunni einfaldlega á geitungana. „En ég segi ykkur það ekki, það er atvinnuleyndarmál.“

Hringt í meindýraeyðir þegar ekki er hægt að grilla

Steinar segir að holugeitungurinn sé mun viðsjárverðari en frændi hans, trjágeitungurinn. „Ég myndi frekar vilja hafa tíu trjágeitungabú í garðinum en eitt holugeitungabú“. Erfitt getur verið að sjá muninn á þessum tveimur tegundum, en holugeitungurinn er ívið minni en trjágeitungurinn og er alla jafna seinna á ferðinni á sumrin. Einfaldara er að greina muninn á búum þessara tveggja tegunda en bú trjágeitunganna eru meira kúlulaga. „Á meðan holugeitungsbúin eru eins og hangandi gluggatjöld og gulari á litinn,“ segir Steinar.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Geitungabú

Steinar hefur séð geitungabú á ótrúlegustu stöðum, m.a. ofan í stígvéli og í klofinu á garðálfi. Hann segir algengt að fólk bíði lengi með að hringja í meindýraeyðir vegna geitungabúa í garðinum. „Þangað til að það er komið mjög nálægt grillinu, eða á grillið. Þá fyrst er farið að hringja í meindýraeyðir“. Að sögn Steinars hefur geitungabúum fjölgað, og þau virðast verða stærri með hverju árinu. „Þetta er á stærð við barnshöfuð, ég held að þau gerist varla stærri. Við erum að tala um bú sem geta innihaldið svona 800-850 stykki,“

Rætt var við Steinar Smára Guðbergsson meindýraeyði um geitunga í Laugardagsmorgnum á Rás 2.

Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Laugardagsmorgnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi