Fleiri hringja í 112

19.06.2017 - 08:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Innhringingum til Neyðarlínunnar frá útlendingum, sem eru í vandræðum víðs vegar um landið, hefur fjölgað talsvert. Þetta kemur fram í ársskýrslu ríkislögreglustjóra. Þjónustutími símtala hefur líka lengst frá fyrri árum.

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir að fjölgun innhringinga sé í takt við fjölgun ferðamanna og spáir því að innhringingum fækki aftur eftir því sem meðalferðamaðurinn dvelur hér á landi í styttri tíma.

„Ef það er rétt, eins og segir í frétt frá Ferðamálastofu um daginn, að þeir séu farnir að vera bara 3,8 nætur í staðinn fyrir 5 nætur fyrir einhverju síðan, þá myndi ég draga þá ályktun að á næsta ári sæjum við verulega fækkun,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Fjarskiptamiðstöð lögreglu svaraði rúmlega 86 þúsund símtölum árið 2016 samanborið við 72 þúsund árið 2013. Þá eru símtölin nærri tvöfalt lengri nú en fyrir fjórum árum, segir Tómas. Ekki er gott að segja hvað valdi, en tungumálaörðugleikar kunni að eiga sinn þátt. 

Leiðsögumenn vita hvað þeir eru að fást við

Þrátt fyrir gífurlega fjölgun ferðamanna yfir sumartímann eykst álagið á Neyðarlínuna ekki endilega sem því nemur enda er ferðamennska ekki það sama og ferðamennska.

„Ferðamenn sem eru á ferðinni á veturna og lenda í basli eru að ferðast í gegnum fjöll og firnindi, vita lítið hvar þeir eru staddir og festast í snjó. Mikill massi af ferðamönnum, sem fer hérna í gegn á sumrin, eru hins vegar mikið í umsjón íslenskra leiðsögumanna. Og þeir vita nákvæmlega hvar þeir eru staddir og hvað þeir eru að fást við þegar þeir hringja til okkar.“

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV