Fleiri græddu á verkfalli BHM

22.08.2017 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður BHM segir ljóst að fleiri stéttir hafi notið kjarabóta sem fengust við tíu vikna verkfall fyrir tveimur árum. Flestar stéttir ríkisstarfsmanna hafa fengið svipaðar eða mun meiri launahækkanir en félagsmenn BHM frá árinu 2014.

Morgunblaðið birti í morgun tölur yfir heildarlaun ríkisstarfsmanna og reiknar hvað launin höfðu í mars á þessu ári hækkað mikið frá meðallaunum tvö þúsund og fjórtán.

Starfsmenn Kennarasambandsins, sem eru þá framhaldsskólakennarar, höfðu hækkað mest, eða um 34%. Læknafélag Íslands hækkaði í launum um 32% á þessum tíma, starfsmenn undir kjararáði hækkuðu um 31% og skurðlæknar um 29%. Á sama tíma hækkuðu félagsmenn BHM um 20% og hjúkrunarfræðingar um 19%, sem er litlu meira en þær hækkanir sem félagsmenn ASÍ fengu, átján prósent. Aðrir ríkisstarfsmenn hafa fengið 18-20% hækkun.

Það vekur athygli að félagsmenn BHM hafi fengið minni launahækkanir en margar aðrar stéttir ríkisstarfsmanna þrátt fyrir langvinn verkfallsátök árið 2015. Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM segir þá stöðu ekki á ábyrgð BHM. „Það sem er mikilvægt að átta sig á í þessari stöðu er að launasetning stéttanna innan BHM er lægri en hjá öðrum háskólamenntuðum sérfræðingum sem vinna hjá ríkinu.“

Þórunn minnir á að verkfallinu 2015 hafi lokið með gerðardómi og mörg önnur stéttarfélög hafi gert þá niðurstöðu að sinni. „Það er hins vegar þannig að það voru miklu fleiri en félagsmenn BHM sem nutu ávaxtanna af langvinnu verkfalli.“

Samningar BHM losna um næstu mánaðamót. Þórunn segir tölurnar sýna að það þurfi að hækka verulega grunnlaun félagsmanna hjá ríkinu. „Það er hjá aðildarfélögum BHM að útfæra kröfugerðina fyrir hvert og eitt félag en að sjálfsögðu hljóta menn að taka mið af því hvað aðrir hafa fengið.“

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV