Flatari skerðing og ekkert frítekjumark

29.02.2016 - 10:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga leggur til að frítekjumark verður afnumið og að þeir sem eru með allt að 50% elli- eða örorkulífeyri geta unnið hálft starf án þess að lífeyririnn skerðist. Þá verði lífeyrisaldur hækkaður í 70 ár á 12 árum. Öryrkjabandalagið og stjórnarandstaðan skila séráliti og styðja ekki allar tillögur nefndarinnar.

Nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga var skipuð í nóvember 2013 og hefur nú komið sér saman um tillögur að breytingum á almannatryggingakerfinu. Fréttastofa hefur tillögurnar undir höndum.

Lagt er til að almannatryggingakerfið verði einfaldað til muna - í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærslubóta komi einn lífeyrir sem verði tæpar 213 þúsund krónur á mánuði. Skerðing á öðrum tekjum verður 45% af samanlögðum tekjum, fyrir utan séreignarlífeyrissparnað og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga en nú er hún misjöfn eftur tekjum. Þá verði frítekjumörk afnumin og atvinnutekjur þeirra sem eru með allt að 50% örorku- eða ellilífeyri skerði ekki lífeyrinn.

Þá er lagt til að frá næstu áramótum hækki lífeyrisaldur um tvo mánuði á ári í tólf ár, og verði þá orðinn 70 ára árið 2029. Þó er lagt til að hægt verði að flýta töku lífeyris frá 65 ára aldri, með þá lægri lífeyri, eða seinka til allt að áttatíu ára aldurs, og þá með hærri lífeyri. Opinberir starfsmenn, sem nú verða að hætta sjötugir, fengju að vinna til 75 ára aldurs.

Þá á að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats og eru allir sem eru ekki orðnir 55 ára skyldugir til að fara í slíkt mat. Hinir ráði hvort þeir fái bætur samkvæmt gamla kerfinu eða fari í starfsgetumat. Samhliða því á að taka á því að almannatryggingabætur skerði tekjur úr lífeyrissjóði - sjóðirnir eigi með öðrum orðum að hætta að líta til greiðslna frá almannatryggingakerfinu við tekjuathugun vegna örorkulífeyrisgreiðslna. Bent er á að þetta þýði að meta þurfi áhrif nýs starfsgetumats á greiðslubyrði lífeyrissjóðanna vegna skertrar starfsgetu. Endurskoða þurfi framlög ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna, komi í ljós að breytingarnar leiði til kostnaðarauka hjá lífeyrissjóðakerfinu. 

Ekki voru lagðar til breytingar á barnalífeyriskerfinu, þar sem ekki náðist samstaða um það í nefndinni.

Samkvæmt tillögu nefndarinnar eiga breytingarnar að taka gildi um næstu áramót.

Ekki var samstaða í nefndinni um tillögurnar. Öryrkjabandalagið og stjórnarandstaðan skiluðu séráliti þar sem þeirri skoðun var lýst að tekjuskerðing væri of mikil, því mótmælt að framfærsluviðmið væru óbreytt og lítill sem enginn hvati væri til vinnu hjá þeim sem væru með minna en fjórðungs starfsgetu.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV