Fjörug keppni í Gettu betur

11.01.2016 - 21:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur hófst á Rás 2 í kvöld. Þrjátíu ár eru síðan keppnin hóf fyrst göngu sína í sjónvarpi.

Alls sendu 29 skólar inn tilkynningu um þátttöku að þessu sinni, en átta lið fara áfram í lokakeppnina sem hefst á RÚV 5.febrúar nk. 

Þrjár viðureignir fóru fram í kvöld í fyrri umferð keppninnar og lyktuðu leikar þannig að lið Kvennaskólans sigraði lið Menntaskólans á Egilsstöðum 37 - 23, lið Fjölbrautaskóla Vesturlands hafði betur gegn liði Fjölbrautaskóla Suðurlands 29 - 23 og lið Framhaldsskólans að Laugum lagði lið Tækniskólans 25 - 21.  

Það eru því lið Kvennaskólans, FVA og Framhaldsskólans að Laugum sem eru komin áfram í 2.umferð keppninnar á Rás 2 ásamt liði Menntaskólans á Akureyri, en lið Landbúnaðarháskólans gaf keppni sína gegn MA fyrr í kvöld.

Spurningahöfundar og dómarar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson og spyrill er Björn Bragi Arnarson. Umsjónarmaður Gettu betur og stjórnandi útsendingar er Elín Sveinsdóttir.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV