Fjórir felldir í árásum á Sínaí-skaga

01.02.2016 - 03:33
epa05005982 Russian investigators check debris from crashed Russian jet at the site of the crash in Sinai, Egypt, 01 November 2015. Russian officials and experts flew to Egypt's Sinai on 01 November, a day after a Russian passenger airliner crashed
Rússnesk farþegaþota var skotin niður yfir Sínaí-skaganum í nóvember 2015. Allir um borð, 224 manneskjur, fórust. Íslamska ríkið lýsti sig ábyrgt fyrir hryðjuverkinu.  Mynd: EPA
Tveir egypskir lögreglumenn og tveir hermenn féllu á sunnudag í tveimur sprengjuárásum á Sínaískaga, þar sem vígasveitir íslamska ríkisins hafa ítrekað ráðist að her og lögreglu undanfarin misseri. Önnur árásin var gerð í dögun í Rafah-héraði við landamæri Gaza, þar sem lögregla var að störfum við húsleit. Lögreglubifreið varð fyrir sprengju sem sprengd var með fjarstýringu og tveir lögreglumenn sem í henni voru létust.

Liðsforingi og óbreyttur hermaður féllu í svipaðri árás í bænum Sheik Zuweid, sem einnig er nærri landamærunum við Gaza. Enginn hefur lýst ábyrgð á árásunum, en eins og áður segir hefur Íslamska ríkið látið mikið að sér kveða á þessum slóðum upp á síðkastið, eða allar götur frá því Egyptalandsher steypti Mohamed Morsi af forsetastóli sumarið 2013.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV