Fjórðungur ungra Svía býr enn í foreldrahúsum

18.05.2017 - 14:00
Skärholmen, úthverfi Stokkhólms, þar sem fjöldi íbúða var byggður á sjöunda og áttunda áratugnum til að draga úr húsnæðisskorti.
Skärholmen, úthverfi Stokkhólms, þar sem fjöldi íbúða var byggður á sjöunda og áttunda áratugnum til að draga úr húsnæðisskorti.  Mynd: Wikimedia Commons  -  Holger Ellgaard
Tæpur fjórðungur Svía á aldrinum 20-27 ára býr enn í foreldrahúsum, samkvæmt könnun Leigjendasamtakanna í Svíþjóð (Hyresgästföreningen). Hlutfallið hefur ekki mælst jafn hátt frá því að samtökin gerðu könnunina fyrst, árið 1997. Þá var það 15%. Um 80% þeirra sem bjuggu í foreldrahúsum sögðust vilja flytja út innan árs.

Í frétt TheLocal er haft eftir starfsmanni samtakanna að eigið húsnæði sé forsenda þess að fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og þróað sjálfsmynd sína. Það sé ekki sannfjarnt að 213.000 manns, sem vilji búa sjálfstætt, geti það ekki. Nauðsynlegt sé að byggja meira íbúðahúsnæði.

Staðan ungs fólks í Svíþjóð virðist þó mun betri en á Íslandi. Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti síðasta haust, bjuggu tæp 57% 20-24 ára í foreldrahúsum árið 2015; og 21.4% 25-29 ára.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV