Fjórðungur húsa er ónýtur

12.09.2017 - 14:58
Debris from Hurricane Irma lays on the side of the Overseas Highway in Islamorda in the Florida Keys on Monday, Sept. 11, 2017, as Hurricane Irma passes. (Charles Trainor Jr/Miami Herald via AP)
 Mynd: AP  -  Miami Herald
Fjórðungur húsa á eyjaklasanum undan suðurströnd Flórída er ónýtur eftir að fellibylurinn Irma fór þar yfir á sunnudag. Sex af hverjum tíu skemmdust í fárviðrinu, að því er Brock Long, yfirmaður bandarísku almannavarnanna, greindi frá í dag. Irma var fjórða stigs fellibylur þegar hún fór yfir eyjarnar.

Íbúar eyjaklasans fá að fara heim í dag. Einnig mega eigendur fyrirtækja huga að eignum sínum. Um það bil 79 þúsund manns búa á eyjunum. Um það bil tíu þúsund neituðu að fara þegar fyrirskipun var gefin út um að svæðið skyldi rýmt í öryggisskyni. Að sögn dagblaðsins Miami Herald vildu margir í þeim hópi ekki skilja eigur sínar eftir. Aðrir sögðust ekki vita hvert þeir ættu að fara.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV