Fjórðu gullverðlaun Dahlmeier í skíðaskotfimi

17.02.2017 - 18:24
epa05799964 Laura Dahlmeier (up) of Germany celebrates with her teammates after winning the women's 4x6km Relay at the IBU Biathlon World Championships in Hochfilzen, Austria, 17 February 2017.  EPA/CHRISTIAN BRUNA
 Mynd: EPA
Þjóðverjinn Laura Dahlmeier vann í dag sín fjórðu gullverðlaun á Heimsmeistaramótinu í skíðaskotfimi í Austurríki. Í dag var keppt í boðgöngu kvenna. Í boðgöngunni mynda fjórir keppendur frá sama landi hvert lið og fara sex kílómetra hver og hver og einn keppandi stoppar á tveimur skotstöðvum.

Laura Dahlmeier tók síðasta sprettinn fyrir lið Þýskalands. Í boðgöngunni hafa keppendur þrjú aukaskot og þurfti Dahlmeier á tveimur þeirra að halda á seinni skotstöðinni. Hún var þó fyrst út af skotsvæðinu og rauk áfram og kom fyrst í mark og tryggði Þýskalandi þar með gullið.

Dahlmeier hefur nú unnið til verðlauna í öllum greinunum fimm sem búnar eru á HM. Hún varð heimsmeistari í 15 kílómetra göngunni, 10 kílómetra eltigöngunni, í blandaðri boðgöngu en var að sætta sig við silfur í sprettgöngunni.

Lokagreinin hjá konunum á HM er 12 og hálfs kílómetra gangan á sunnudag þar sem allir keppendur verða ræstir samtímis og sýnir RÚV beint frá keppninni klukkan hálfellefu.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður