Fjórði hver dauðra fálka reyndist skotinn

20.01.2016 - 11:43
Íslenski fálkinn býr við ýmsar ógnanir. Maðurinn er ein þeirra. Af þeim dauðum fálkum sem berast Náttúrufræðistofnun reynist einn af hverjum fjórum hafa verið skotinn. Fálkinn hefur verið friðaður í rúm 80 ár.

Aðrar ógnanir af mannavöldum er eyðilegging óðala, breyting á búsvæðum rjúpunnar og eiturefni úr mannheimum sem safnast hafa upp í bráð fálkans. 

Sögu fálkans má rekja langt aftur. Á Grænlandi hefur verið aldursgreindur fálkaskítur í hreiðri nokkru og reyndist það hafa verið setið í tvö þúsund ár.

Ólöglegt að skjóta fálka

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Ólaf Karl Nielsen vistfræðing sem hefur rannsakað fálkann og tengsl hans og rjúpunnar samfellt í 35 ár. Rætt er við hann í Samfélaginu um rannsóknirnar og lífshætti fálkans. 

„Þrátt fyrir áratuga friðun eru menn enn að skjóta fálka,“ segir Ólafur Karl. „Hvað vakir fyrir skyttunum veit ég ekki, þetta er náttúrulega ólöglegt. Stundum tengist það því að menn telji sig vera að verja einhverja hagsmuni. Stundum, því miður, eru menn að skjóta þá til láta stoppa upp.“

Áður fyrr var eggjastuldur og stuldur á ungum mikið vandamál. „Þá voru menn að flytja eggin og ungana út. Þá var hugmyndin að selja þessa fugla svo áfram til veiðileikja,“ segir Ólafur Karl. „Þessar eldisstöðvar voru, og eru, flestar í Þýskalandi en markaðurinn fyrir fuglana var í Mið-Austurlöndum. En það hefur stórlega dregið úr þessu.“

Mynd með færslu
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi