Fjölnir með stórsigur á Grindavík

17.07.2017 - 21:08
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV
Fjölnir vann í kvöld 4-0 stórsigur á spútnikliði Grindavíkur í Pepsi-deild karla. Fjölnir fékk sannkallaða draumabyrjun þegar Linus Olsson, nýr leikmaður Fjölnis, skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins tveggja mínútna leik.

Fjölnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og bættu við forystu sína með frábæru marki frá Gunnari Má Guðmundssyni sem skoraði með frábæru skoti fyrir utan teig. Staðan 2-0 í hálfleik.

Aðeins voru liðnar þrjár mínútur af síðari hálfleik þegar Fjölnir hafði náð þriggja marka forystu. Var þar að verki Þórir Guðjónsson. Hann var aftur á ferðinni á 66. mínútu og gulltryggði þar með stórsigur Fjölnismanna.

Grindvíkingar fengu nokkur góð færi í leiknum en inn vildi boltinn ekki. Markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar, Andri Rúnar Bjarnason, misnotaði vítaspyrnu á 79. mínútu leiksins sem kórónaði slæman dag Grindvíkinga.

Fjölnir fer úr fallsæti með sigrinum og er liðið nú með 12 stig í 8. sæti að loknum ellefu umferðum. Grindvíkingar eru sem fyrr í 2. sæti með 21 stig.

Staðan í Pepsi-deildinni

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður