Fjölmenningarsetrið verður stofnun

15.10.2012 - 13:39
Mynd með færslu
Fjölmenningarsetrið á Ísafirði verður gert að sérstakri stofnun verði frumvarp um innflytjendamál að lögum. Framkvæmdastjóri setursins segir mikið verk óunnið í málaflokknum. Innflytjendur glími við hlutfallslega meira atvinnuleysi, brottfall úr framhaldsskólum og vinnuslys en Íslendingar.

Fyrir velferðarnefnd Alþingis liggur nú frumvarp ráðherra um málefni innflytjenda. Þar er lagt til að Fjölmenningarsetrið á Ísafirði verði gert að sérstakri stofnun sem heyri undir ráðherrann. Markið frumvarpsins er meðal annars að efla möguleika innflytjenda á að verða virkir þátttakendur í samfélaginu og að þeir njóti sömu réttinda og aðrir þegnar landsins.

Elsa Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fjölmenningarsetursins, segir að ekki sé þó meiningin að innflytjendamálum verði stýrt frá Ísafirði. Verði frumvarpið að lögum styðji Fjölmenningarsetur við sveitarfélögin þegar kemur að þjónustu við innflytendur, enda sé það lögbundið hlutverk þeirra að þjónusta innflytjendur. Langtímastefnumörkun ætti að batna, til að mynda varðandi upplýsingar til innflytjenda og þýðingar.

Elsa segir að efla þurfi þjónustu við innflytjendur. Fáir ljúki framhaldsskóla, margir séu atvinnulausir og vinnuslys séu tíð í þeirra hópi. Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar tæp 7% af heildarmannfjöldanum. Hlutur þeirra í vinnuslysum var þó mun meiri í fyrra, þannig voru þeir 13% þeirra sem lentu í vinnuslysum.

„Það hefur væntanlega eitthvað með störfin að gera eins og í byggingariðnaði, þar hafa verið margir innflytendur. Svo hefur það væntanlega eitthvað með öryggismálin að gera líka, að innflytjendur séu ekki jafn upplýstir um öryggisreglur á vinnustað, þar kemur tungumálið inn í,“ segir Elsa