Fjölmenni um allt land á kvennafrídeginum

24.10.2016 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Mikill fjöldi kvenna er kominn saman á Austurvelli í miðborg Reykjavíkur, á Ráðhústorginu á Akureyri og Ísafirði, þar sem haldnir eru samstöðufundir um launajafnrétti. Konur voru hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:38, sem er táknræn tímasetning vegna launamisréttis. Þá hafa þær unnið fyrir launum sínum, ef litið er til munar á atvinnutekjum karla og kvenna. 

Í dag er 41 ár frá kvennafrídeginum árið 1975 þegar tugþúsundir kvenna lögðu niður störf og fjölmenntu í miðborgina. Árið 2005 þegar Kvennafrídagurinn var endurvakinn voru konur hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:08. Þegar kvennafrídagurinn var haldinn árið 2010 voru konur hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:25.

Foreldrar leikskólabarna, feður sérstaklega, voru hvattir til að sækja börn sín klukkan 14:30 svo konur sem vinna á leikskólum geti tekið þátt í viðburðinum í miðborginni í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður götum, nálægt Austurvelli lokað ef þörf krefur. Þar er átt við Skólastræti, Pósthússtræti og Kirkjustræti.

Mynd með færslu
 Mynd: ruv

Á Akureyri er sömuleiðis mikill fjöldi kvenna komin saman á Ráðhústorgi. Stéttarfélög í Eyjafirði höfðu áður hvatt konur til að leggja niður störf og skunda á Ráðhústorgið og taka þátt í söng og gleði.

Mynd með færslu
 Mynd: ruv

Á Ísafirði er töluverður fjöldi kominn saman.

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV