Fjölgar árlega sem nemur íbúafjölda Spánar

05.03.2016 - 12:15
Erlent · Asía
epa05195521 Delegates applaud as Chinese President Xi Jinping (front) arrives during the opening of the fourth Session of the 12th National People's Congress (NPC) at the Great Hall of the People in Beijing, China, 05 March 2016. The NPC has over 3
Xi Jinping, forseti Kína, var hylltur þegar hann mætti til fundar á þinginu.  Mynd: EPA
Kínversk stjórnvöld gera ráð fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði á bilinu 6,5-7,0 prósent, sem er minnsti hagvöxtur í landinu aldarfjórðing. Reiknað er með að landsmönnum fjölgi um 45 milljónir á næstu árum.

Fundur kínverska þjóðþingsins stendur nú yfir í Peking og í morgun voru meðal annars lögð fram drög að endurskoðaðri fimm ára áætlun stjórnvalda fyrir tímabilið 2016-2020.

Þar kennir ýmissa grasa, meðal annars er því spáð að á næstu árum fjölgi landsmönnum á hverju ári um 45 milljónir, eða sem nemur íbúafjölda Spánar. Árið 2020 verði Kínverjar orðnir 1,42 milljarðar.

Mesta athygli hefur þó hagvaxtarspáin vakið. Li Keqiang forsætisráðherra greindi frá því í opnunarræðu sinni að á þessu ári væri búist við að landframleiðslan ykist um 6,5-7,0 prósent. Li sagði í ræðunni að framundan væri erfið barátta við að ná þróunarmarkmiðum ríkisins.

Í fyrra var hagvöxtur í Kína 6,9 prósent og hafði þá ekki mælst minni í 25 ár. Dvínandi hagvöxtur í Kína er ein helsta skýringin á lágu olíuverði í heiminum og ólgu á hlutabréfamörkuðum og væntanlega verða litlar breytingar þar á hægi enn á vexti landsframleiðslunnar.

Á sama tíma hyggjast kínversk stjórnvöld auka framlög sín til varnarmála um 7,6 prósent í ár. Kínverjar hafa að undanförnu aukið hernaðarumsvif sín verulega, ekki síst á Suður-Kínahafi þar sem ríkir mikil spenna vegna deilna um yfirráð yfir stórum hafssvæðum.

Vöxtur hernaðarútgjaldanna er þó ekki eins mikill eins og undanfarin ár, raunar er um minnstu aukningu að ræða í sex ár, að því er Xinhua-fréttastofan hermir, og vísar til fjárlagaskýrslu sem nú er til umræðu á kínverska þinginu.