Fjögurra saknað eftir flóð á Grænlandi

18.06.2017 - 11:45
Mynd með færslu
Frá Nuugatsiaq eftir að flóðbylgja skall á þorpinu.  Mynd: Skjáskot úr myndbandi DR
Fjögurra er saknað í bænum Nuugaatsiaq á vesturströnd Grænlands eftir að flóðbylgja reið þar yfir í gærkvöld. 11 hús eru ónýt. Þetta kom fram á blaðamannafundi grænlensku lögreglunnar sem nú stendur yfir.

Verið er að flytja íbúa í bænum í burtu með þyrlu. Þar búa um hundrað manns og búið er að flytja 78 í burtu. Flóðbylgjan kom eftir jarðskjálfta af stærðinni 4,0 í um 30 kílómetra fjarlægð frá byggði í Nuugaatsiaq um klukkan 23:00 að staðartíma í gærkvöld. Grænlenska dagblaðið Sermitsiaq greinir frá því að níu séu særðir, þar af tveir alvarlega.

Íbúar í bænum Uummannaq, sem einnig er á vesturströndinni, flýðu til fjalla í nótt vegna flóðbylgju sem reið þar yfir, að því er fram kemur á vef Sermitsiaq. Ástandið er betra þar og hafa íbúar Nuugaatsiaq verið fluttir þangað.

Trine Dahl Jensen, sérfræðingur hjá Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands, segir ekki algengt að svo stórir skjálftar ríði yfir Grænland. „Það er hætta á eftirskjálftum og ekki er hægt að útiloka að fleiri flóðbylgjur ríði yfir,“ segir hún í samtali við Extrabladet.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir