Fjögur börn frelsuð úr klóm mannræningja

epa04893971 An armed member of the National Civilian Police (PNC) of El Salvador patrols the surroundings of Quezaltepeque prison, in Quetzaltepeque, some 25km from San Salvador, El Salvador, 22 August 2015. According to media reports on 22 August 2015,
Óöld ríkir í mörgum löndum Mið-Ameríku, þar á meðal í El Salvador, og fjöldi fólks leggur land undir fót í von um betra líf í Bandaríkjunum.  Mynd: EPA  -  EFE
Lögregla í Gvatemala frelsaði fjögur börn frá El Salvador úr klóm mannræningja á dögunum. Börnin, sem eru á aldrinum fjögurra til þréttán ára, voru gripin á leið frá heimalandi sínu til Bandaríkjanna. Nery Ramos, ríkislögreglustjóri Gvatemala, sagði að ættingjar barnanna í Bandaríkjunum hefðu verið krafðir um lausnargjald á milli 100.000 og 150.000 dollara fyrir hvert þeirra, til að forða þeim frá bráðum bana.

Tvær konur voru handteknar þegar lögregla réðst inn í húsið þar sem börnunum var haldið, en upplýsingar um verustað þeirra bárust frá lögreglu í El Salvador. Börnin voru ómeidd og vel á sig komin þegar þau losnuðu úr prísundinni. Ekki hefur komið fram, hvort þau hafi verið ein á ferð eða í fylgd með fullorðnum, þegar þeim var rænt.

Töluvert hefur fjölgað að undanförnu í hópi fjölskyldna og barna frá Mið-Ameríku, sem freista þess að komast til Bandaríkjanna. Stór hluti þeirra er að flýja ófremdarástand heima fyrir, sem rekja má til blóðugra átaka milli glæpagengja, einkum í El Salvador, Gvatemala og Hondúras.

Á sama tíma hafa bandarísk yfirvöld staðið fyrir umfangsmiklum aðgerðum gegn ólöglegum innflytjendum frá þessum löndum, handtekið þá og sent til síns heima svo hundruðum og þúsundum skiptir. Þær aðgerðir beinast einkum gegn dæmdum ofbeldismönnum og öðrum glæpamönnum frá Mið-Ameríku. Heimkoma þeirra eykur enn á upplausnina í heimalöndunum, sem aftur hrekur enn fleira fjölskyldufólk á flótta.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV