Fjárfestingunni varla hent út um gluggann

15.07.2017 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RÚV
Framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva segir að áhættumat Hafrannsóknarstofnunar, þar sem lagst er gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði, sé einungis innlegg í umræðuna en ekki endanleg niðurstaða. Fjárfestingu sem þegar hefur verið lagt í verði varla hent út um gluggann án faglegrar umræðu.

Hafrannsóknastofnun birti í gær áhættumat sem unnið var fyrir starfshóp Sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi við Ísland. Þar segir að Vestfirðir og Austfirðir þoli sjöfalt meira eldi á frjóum laxi en nú er, en þó er lagst gegn laxeldi í Stöðvarfirði sem og Ísafjarðardjúpi, þar sem þrjú fiskeldisfyrirtæki áforma stórfellt eldi. Ástæðan er sú að eldi þar er talið skapa of mikla hættu á erfðablöndun við íslenska laxastofna.

„Engan veginn endanlegt“

„Það er ljóst að þetta áhættumat er innlegg í umræðuna og ekki meitlað í stein og engan veginn endanlegt,“ segir Kristján Þ. Davíðsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva.

„Sem betur fer, mundu kannski einhverjir Vest- og Austfirðingar segja, því að ef þetta væri raunveruleikinn þá væri verið að fórna meiri hagsmunum margra brothættra byggðarlaga fyrir minni, kippa grundvelli undan hundruðum starfa og milljörðum í væntum skatttekjum og útflutningstekjum og þar með innviðauppbyggingu í þessum sveitarfélögum og landinu öllu. Það verður vonandi seint þannig að hver einasti villilax í landinu njóti vafans óháð því hvaða áhrif það hefur á samfélögin í byggðum Vestfjarða og Austfjarða,“ segir Kristján.

Þarf að ræða forsendur og aðferðafræði

Kristján vill ekki leggja mat á hversu mikil fjárfestingin sé nú þegar bara í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði, en heildarfjárfestingin á landinu öllu hlaupi á tugum milljarða. Nú þurfi að ræða gagnrýnið um áhættumatið.

„Svona mat hefur aldrei verið notað neins staðar í heiminum og því er væntanlega eðlilegt að ræddar séu forsendur, aðferðafræði, tillögur og niðurstöður.“

Kristján segir að löggjafinn hér hafi ákveðið að setja ströngustu reglur í heiminum um friðun landsvæða fyrir fiskeldi. „Það var gert árið 2004, og þar með að nokkrir firðir þar sem fiskirækt í ám er lítilsháttar eða engin skuli nýttir til fiskeldis, og þar með talið voru til dæmis Ísafjarðardjúp og Stöðvarfjörður,“ segir hann.

„Með það í huga hefur verið fjárfest í mikilli vinnu og rannsóknum til undirbúnings eldis á þessum svæðum. Þessari fjárfestingu verður varla hent út um gluggann án faglegrar, gagnrýninnar umræðu,“ segir Kristján Þ. Davíðsson, framkvæmdastjóri Landssambands Fiskeldisstöðva.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV