Fjárfesting í United Silicon var metin góð

20.08.2017 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage  -  RÚV
Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna hefur fjárfest í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík fyrir tæpar 113 milljónir króna. Framkvæmdastjóri sjóðsins segir að sér þyki staðan mjög miður en fjárfestingin hafi á sínum tíma verið metin góð.

Héraðsdómur Reykjaness veitti stjórn Sameinaðs silicons heimild til greiðslustöðvunar í siðustu viku. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður og Eftirlaunasjóður flugmanna fjárfestu allir í fyrirtækinu. Fjárfesting Eftirlaunasjóðs flugmanna er 0,34 prósent af heildareignum sjóðsins.

Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir miður að þessi staða sé komin upp. „Eins og með allar fjárfestingar þá vonar maður að þær gangi vel. Þegar þær ganga ekki vel þá er það mjög miður. Við vonumst bara eftir því að félaginu takist að ljúka þessari endurskipulagningu og að fjárfestingin skili ásættanlegri niðurstöðu,“ segir hún. Snædís segir jafnframt að fjárfestingin  hafi verið metin sem góð að teknu tilliti til áhættu. 

Síðan starfsemi hófst í verksmiðjunni í nóvember síðastliðnum hafa íbúar í nágrenninu ítrekað fundið fyrir mengun. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í fréttum RÚV á föstudag að lífeyrissjóðir ættu að skoða hag sjóðsfélaga sinna við mat á því hvort þeir leggi meira fé til United Silicon. Snædís segir ekki tímabært svara því, að svo stöddu, hvort til standi að Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna leggi meira fé til verksmiðjunnar.

Eitthvað hefur verið um að sjóðsfélagar hafi sett í sig í samband við sjóðinn til að lýsa óánægju sinni með fjárfestinguna. „Það hefur verið eitthvað um það en ekki mjög mikið en eitthvað, að sjálfsögðu. Við fögnum því alltaf að heyra frá sjóðsfélögum. Alveg sama hvort um er að ræða erfið mál eða skemmtileg. Þá viljum við gjarna heyra frá þeim en einhverjir hafa haft samband, að sjálfsögðu.“ 

Við fréttarinnar náðist ekki í forsvarsmenn hinna lífeyrissjóðanna sem fjárfestu í United Silicon. 

Fréttin hefur verið uppfærð.