Fjallabyggð og Akureyrarbær ná sáttum

11.02.2016 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: Menntaskólinn á Tröllaskaga
Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur ákveðið að taka sáttaboði Akureyrarbæjar, vegna deilna sveitarfélaganna um húsnæðiskostnað Menntaskólans á Tröllaskaga. Þar með lýkur deilu sem staðið hefur yfir í þó nokkurn tíma, en Fjallabyggð krafðist þess að Akureyrarbær tæki þátt í leigugreiðslum.

Í sáttaboðinu felst að Akureyrarbær greiði eingreiðslu, sem gæti verið allt frá 1,3 milljónum upp í 4,8 milljónir króna. Í því var sérstaklega tekið fram að þetta væri lagt fram sem sátt, en ekki viðurkenning á því að Fjallabyggð eigi réttmætar kröfur á hendur Akureyrarbæ.

Í bókun bæjarstjórnar segir að drög að samkomulagi við Akureyrarbæ hafi verið samþykkt samhljóða, um eingreiðslu vegna eldri og framtíðar leigugreiðslna.

Hafa deilt lengi

Upphaflega stóð til að Akureyrarbær tæki þátt í stofnkostnaði fyrir nýtt húsnæði skólans. Síðar var ákveðið að skólinn yrði í húsnæðinu þar sem grunnskóli Ólafsfjarðar var áður og gerðar voru breytingar. Sveitarfélögin gerðu þó engan samning um þátttöku í leigugreiðslum vegna þess húsnæðis og leit bæjarfélagið svo á að því væri ekki skylt að taka þátt í þeim greiðslum um óákveðinni tíma.

Hafa áður greitt eingreiðslu

Fjallabyggð taldi hins vegar að sveitarfélaginu bæri að taka þátt í þessum greiðslum lögum samkvæmt. Eftir að sveitarstjórnirnar höfðu staðið í deilum bréfleiðis ákvað Akureyrarbær að reyna að leita sáttar, en það var að vísu í annað skipti sem slíkt var gert. Árið 2013 greiddi Akureyrarbær eingreiðslu í samræmi við samkomulag sem náðist við Fjallabyggð, en fulltrúar þess síðarnefnda undirrituðu það þó aldrei. Akureyrarbær fór þó ekki fram á að fá þá upphæð endurgreidda. Eingreiðslan nú mun því koma til viðbótar við þá fyrri.