Fimmtán löggur bíða eftir fundi með ráðherra

17.02.2016 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Fjórtán starfsmenn lögreglu höfuðborgarsvæðisins hafa átt fundi í innanríkisráðuneytinu vegna samskiptavanda innan embættisins. Fundirnir eru sex talsins, en á tveimur þeirra lýstu fundargestir yfir stuðningi við Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra.

Þetta kemur fram í skriflegu svari innanríksráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Þar kemur einnig fram að einn starfsmaður embættisins hafi átt fund með ráðherra, en það var Aldís Hilmarsdóttir fyrrum yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar sem var nýverið færð til í starfi, aðrir fundir voru haldnir með starfsmönnum innanríkisráðuneytisins.

Í svari ráðuneytisins kemur jafnframt fram að fimmtán lögreglumenn til viðbótar hafi óskað eftir fundi með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra.

Landssamband lögreglumanna vill líka fund

Þá óskaði Landssamband lögreglumanna (LL)eftir fundi með innanríkisráðherra í gær, en á þriðja tug lögreglumanna hefur kvartað við sambandið yfir samskiptavanda við lögreglustjórann.

Sextán manna stjórn LL samþykkti einróma á fundi sínum á mánudaginn að óska eftir fundinum með ráðherra til að ræða ástandið innan lögreglunnar, sem er óviðunandi.