Fimm sjúklingar um hálfkláruð Norðfjarðargöng

11.01.2016 - 11:52
Mynd með færslu
 Mynd: Hnit - Ófeigur Örn Ófeigson  -  Í Norðfjarðargöngum
Norðfjarðargöng eru þegar farin að sanna gildi sitt þótt þau séu enn hálfkláruð. Þau hafa fimm sinnum verið notuð til sjúkraflutninga í neyð á síðustu vikum. Þannig hafa göngin bæði sparað tíma og létt á björgunarsveitum sem annars hefðu þurft að fylgja sjúkrabíl yfir ófært Oddsskarð.

Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðstjóri í Fjarðabyggð, segir að sjúkrabíll sé þó lengur að fara um göngin eins og þau eru núna en að aka um vel fært Oddsskarð.

„Við vorum svona 35-40 mínútur í gegnum göngin frá Eskifirði og út á sjúkrahús en við erum svona 25-30 mínútur að keyra yfir skarðið. Verktakinn í göngunum skildi þau eftir auð yfir hátíðarnar til að við gætum nýtt þau í neyð, þannig að það hefur verið gott að fara í gegnum þau,“ segir Guðmundur.

Eina nóttina fóru sjúkraflutningamenn tvisvar um göngin, í annað skiptið með ungbarn til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar. Við erum búnir að fara fimm sinnum í gegn. Þau eru heldur betur búin að koma sér vel yfir jólin. Það var ótrúlega oft sem gerði ófært á skarðinu yfir hátíðarnar en við höfum ekkert farið eftir áramót,“ segir Guðmundur.

Kunna á talnalásinn

Göngin eiga að verða tilbúin í síðasta lagi í september 2017. Guðmundur Ólafsson, verkstjóri hjá Suðurverki sem annast framkvæmdina, segir að samkomulag hafi verið gert við sjúkraflutningamenn. „Ef tilfelli kemur upp og skarðið er lokað er þeim hleypt í gegn í fylgd með bíl frá okkur og með samþykki Vegagerðar og verktaka,“ segir Guðmundur. Séu verktakar ekki á staðnum eins og gerðist um hátíðarnar kunni sjúkraflutningmenn á talnalás í göngunum. Hann segir að brátt hefjist vinna við lagnir í göngunum. Guðmundur slökkviliðsstjóri telur að um leið verði torsóttara að komast um göngin enda sé viðbúið að vegurinn verði rofinn vegna lagnavinnu.

Bilaður veðurmælir á Oddsskarði

Hann bendir á að veðurmælir Vegagerðarinnar á Oddskarði sé bilaður og hafi verið það meira og minna í desember. Það komi sér illa fyrir sjúkraflutninga. „Það hefur ekki hjálpað til að við að meta hvernig færðin er. Við þurfum alltaf að geta metið hvernig sé að komast yfir skarðið. Á nóttunni veistu ekkert og sérð ekki hvernig veðrið er þar meðan mælirinn er bilaður,“ segir Guðmundur. 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV