Fimm mál vegna kampavínsklúbba í rannsókn

21.01.2016 - 06:51
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
61 brot er skráð í málaskrá lögreglu vegna svokallaðra kampavínsklúbba í Reykjavík frá árinu 2011 til ársloka 2015. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. 5 mál voru í rannsókn hjá lögreglu vegna slíkrar starfsemi á síðasta ári en lögreglan hefur hætt rannsókn á málum tengdum þessum stöðum 30 sinnum.

Þorsteinn lagði fyrirspurn sína fram í lok  nóvember.  Hann óskaði eftir upplýsingum um hversu mörg tilvik hefðu verið skráð í dagbók lögreglu og tengdust starfsemi kampavínsklúbba og hversu mörg brot hefðu verið skráð í málaskrá lögreglu.

Fram kemur í svari ráðherrans að samkvæmt dagbók lögreglu frá 1. janúar 2011 til 8. desember 2015 hafi 197 atvik verið skráð og 61 brot verið skráð í málaskrá lögreglu. Í svarinu er hægt að skoða verkefni lögreglu eftir árum - þar sést að árið 2013 voru þau flest eða 89.

Það ár réðst lögreglan í umfangsmiklar aðgerðir gegn kampavínsklúbbnum Strawberries sem enn sé ekki fyrir endann á - skattrannsóknarstjóri er að ljúka rannsókn sinni á umfangsmiklum skattalagabrotum sem talin eru geta numið tugum milljóna.

Í svari ráðherrans er einnig tíundað hver staðan er á málum tengdum rekstri kampavínsklúbba. 15 af þessum 61 máli sem upp hafa komið frá árinu 2011 hafa verið sett í ákærumeðferð. 2 mál eru í bið og 5 eru í rannsókn.

Þá upplýsir ráðherrann að rannsókn 30 mála hafi verið hætt, þrisvar hafi verið greidd sekt og 5 séu til afgreiðslu.

Ráðherrann rekur einnig hvers konar brot þetta eru sem hafa verið til rannsóknar hjá lögreglu - þetta eru til að mynda 12 auðgunarbrot, þar af 8 fjársvikamál. 12 hafa verið kynferðisbrot þar af eru 11 vegna kaupa á vændi. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV