Fíkniefni greind í frárennslisvatni

21.12.2016 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  rúv
Þótt fíkniefnaneysla sé oft falin og erfitt að meta útbreiðsluna, er hægt að mæla efnin í frárennslisvatni. Ný rannsókn bendir til þess að neysla á amfetamíni sé meiri í Reykjavík og borgum í Norður-Evrópu en í borgum sunnar í álfunni.

Amfetamín er mikið notað á Íslandi og er neyslan meiri í Reykjavík og borgum í Norður-Evrópu en í borgum sunnar í Evrópu. Þetta kemur fram í samanburðarrannsókn á fíkniefnanotkun í 60 borgum í Evrópu. 

Síðastliðin tvö ár hafa verið tekin sýni úr klóakinu í Reykjavík til að kanna fíkniefnaneyslu í Reykjavík. Rannsóknin hófst fyrir tveimur árum og er hún hluti af stærra verkefni sem fer fram í tuttugu og einu landi og sextíu borgum í Evrópu. Leitað er að kókaíni, amfetamíni, metamfetamíni og MDMA eða E-pillum og hafa sýnin verið tekin í samstarfi við verkfræðistofuna Verkís og Veitur. Þegar þau berast í hreinsistöðvarnar hafa þau farið um klóakið og líka mikið af vatni og þau eru því mjög útþynnt. Efnin eru einangruð, styrkur þeirra mældur og síðan er reiknuð út dagleg neysla á 1000 íbúa. 
Arndísi Sue Ching Löve lyfjafræðingur á rannsóknarst. í lyfja- og eiturefnafr. við Háskóla Íslands sér um rannsóknina og er hún hluti af doktorsverkefni hennar.  „Við vildum bara vita hvort þessi aðferðarfræði er nýtileg á Íslandi og hvort þessi efni séu mælanleg í fráveituvatninu hér og það reynist vera rétt, öll þessi efni eru vel mælanleg í vatninu.“

Niðurstöðurnar eru birtar á vefsíðu Eftirlitsmiðstöðvar Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn og þar má sjá að amfetamínnotkun er mikil í Norður-Evrópu.

„Aðalniðurstöðurnar eru þær að amfetamínnotkunin hér á Íslandi er mjög svipuð og í öðrum á Norðurlöndunum og mikil miðað við önnur lönd sem eru sunnar í Evrópu.  Það svona staðfestir það sem við héldum fyrir og það sem aðrar mælingar hafa sýnt, að miðað við önnur efni er amfetamín mikið notað á Íslandi.“

Kókaín er hins vegar meira notað sunnar í Evrópu og metamfetamín meira í Austur-Evrópu.  „Aðallega það sem sást á MDMA-notkunini var að það eru mjög miklar sveiflur yfir vikuna, það þýðir að notkunin er meiri yfir helgarnar, sem er í samræmi við þekktar notkunarvenjur á þessu efni.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV