FÍB segir FME ekki skilja gagnrýnina

08.03.2016 - 12:20
Mynd með færslu
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.  Mynd: RÚV
Félag íslenskra bifreiðaeigenda er ósátt við viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við gagnrýni félagsins á arðgreiðslur tryggingafélaganna. FÍB segir viðbrögðin bera með sér að Fjármálaeftirlitið skilji ekki í hverju gagnrýnin felist.

Gagnrýni FÍB og fjölda annarra snúist um að vegna breytinga á reglum um reikningsskil telji tryggingafélögin að þau geti nýtt uppsafnaða bótasjóði í eigin þágu, þar á meðal í arðgreiðslur. Í tilkynningu frá FÍB kemur fram að vegna nýju reikningsskilanna þurfi tryggingafélögin ekki lengur á bótasjóðunum að halda til að eiga fyrir tjónum. Þeim nægi sterk eiginfjárstaða. Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir að viðskiptavinir félaganna hafi byggt þessa sjóði upp með ofteknum iðgjöldum. Sjóðirnir hafi verið ætlaðir til að greiða tjón, þeir hafi verið skuld við tjónþola en ekki ætlaðir í arðgreiðslur. 

Ráðleggingar Fjármálaeftirlitsins til fólks að skipta um tryggingafélag sé það ósátt við arðgreiðslurnar skili litlu í ljósi þess að tryggingafélögin þrjú sem um ræði ráði yfir 90 prósentum tryggingamarkaðarins.  

FÍB telur FME hafa getað brugðist við

Fjármálaeftirlitið segir í yfirlýsingu að það hafi ekki heimildir til að gefa tryggingafélögunum fyrirmæli um ráðstöfun arðs til tryggingatakanna sem byggðu upp bótasjóðina. FÍB telur þessi orð til merkis um sofandahátt undanfarin sex til sjö ár, á meðan undirbúningur stóð yfir á innleiðingu nýrra reikningsskila. Fjármálaeftirlitinu eigi að hafa verið ljóst að tryggingafélögin þyrftu ekki lengur á bótasjóðunum að halda þegar nýju reglurnar yrðu innleiddar. Þá hefði Fjármálaeftirlitið getað unnið með tryggingafélögunum að því að láta þau skila bótasjóðunum til viðskiptavina með því að nýta þá leið til að greiða tjón . Á móti hefði verið hægt að lækka iðgjöld og þannig hefðu viðskiptavinir tryggingafélaganna fengið sjóðina endurgreidda.