Ferðamenn vildu ekki konu sem leiðsögumann

07.08.2017 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Dæmi eru um að ferðamenn neiti að þiggja leiðsögn kvenkyns leiðsögumanna. Sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu segir að við þessar aðstæður sé konunum skipt út fyrir karla og að þær missi við þetta af tekjum. Ekki er horft sérstaklega til jafnréttislaga við útgáfu starfsleyfa fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Kona hafði samband við Jafnréttisstofu í síðustu viku og tilkynnti að hún hefði verið látin víkja fyrir karlkyns leiðsögumanni þar sem ferðamennirnir vildu ekki leiðsögn og akstursþjónustu konu. Sambærilegt mál kom upp í byrjun sumars. Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, segir að konan sem tilkynnti málið segi það ekki einsdæmi. Ekki liggur fyrir hvaða ferðaskrifstofa á í hlut eða hverjir ferðamennirnir eru.

„Hún talar um að þetta sé svolítið viðloðandi og hún var mjög ósátt af því að þetta er að gerast ekki bara með hana heldur líka aðrar konur í bransanum,“ segir Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu.

Hún segir að konan hafi við þetta orðið fyrir tekjumissi. Bergljót segir að þetta sé hreint og klárt lögbrot.

„Þetta er brot á 18. grein jafnréttislaga þar sem atvinnurekendur eiga að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og eiga sérstaklega að vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf.“

Ekki horft til jafnréttislaga við leyfisveitingu

Jafnréttisstofa hafði samband við Ferðamálastofu og hvatti til aðgerða af þeirra hálfu. Fólk sem brotið er gegn með þessum hætti þarf sjálft að kæra brotið. Það reynist mörgum erfitt.

„Viðkomandi þarf að fara sjálfur í kæruferli. Þessar konur hafa ekki viljað kæra, sjálfsagt að hugsa um sitt atvinnuöryggi en við þurfum að passa auðvitað að þetta sé í lagi að það sé ekki verið að brjóta á lögum. Það þarf að tryggja það,“ segir Bergljót.

Hún hvetur fólk til að tilkynna brot.

„Já, endilega, enda setjum við inn færslu á Facebook núna fyrir helgi þar sem við viljum endilega að fólk leiti til okkar þegar það telur að það sé brotið á því á vinnumarkaði.“

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir að Ferðamálastofa hafi ekki eftirlit með jafnréttislögum við leyfisveitingu sína. Það sé ekki lögbundið hlutverk stofnunarinnar. 

„Leyfisveitingar Ferðamálstofu ganga út á að veita leyfi til ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa og þau leyfi eru í raun grundvölluð á neytendavernd. Hins vegar þá held ég að það sé mikilvægt að minna á að hér á landi er gæðakerfi innan ferðaþjónustunnar sem heitir Vakinn. Innan þess þar eru ákvæði um samfélagslega ábyrgð og auðvitað gengið út frá því að fyrirtæki starfi á grundvelli laga og reglna,“ segir Ólöf Ýrr.

Það eigi við um jafnréttislög rétt eins og önnur lög. Tilkynningar sem þessi eru nýjar af nálinni og hafa ekki komið með formlegum hætti inn á borð Ferðamálastofu áður.

Gunnar Dofri Ólafsson