Ferðamenn sautján sinnum í bílabrasi

15.02.2016 - 15:30
Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögreglan á Suðurlandi aðstoðaði sautján sinnum erlenda akandi ferðamenn í síðustu viku. Oftast höfðu ferðamennirnir fest bíla sína í snjó. „Við bendum fólki á hvar það geti leitað hjálpar. Það eru ýmist bílaleigurnar sem í hlut eiga, eða aðilar sem taka að sér slík verkefni. Ef mikið liggur við er leitað til hjálparsveita. Við drögum ekki bíla eða þess háttar“, segir Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

 

Þessi tilfelli voru á meðal 173 verkefna lögreglunnar á Suðurlandi undanfarna viku, sem ekki voru skráð sakamál. Af alvarlegri málum hafði lögreglan nóg í síðustu viku. Banaslys varð í Reynisfjöru. Fimmtán ökumenn voru kærðir fyrir ýmis konar brot á umferðarlögum. Alls urðu 18 umferðaróhöpp í umdæminu í síðustu viku. Í þeim meiddust samtals 9 manns, en enginn þó alvarlega.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV