Ferðamaður lýsir slysinu í Silfru á sunnudag

17.02.2017 - 09:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Breska blaðið Daily Mail, einn mest lesni vefur heims á ensku, slær upp slysinu í Silfru um helgina á vef sínum. Vefurinn vitnar meðal annars í Facebook-færslu sjónarvotts og hefur eftir honum að vegna fjölda hópa í Silfru þennan dag hafi fólk neyðst til að bíða í drykklanga stund í kafarabúningum á trébekkjum.

Bandaríkjamaðurinn Scot Hacker segist hafa orðið vitni að slysinu um helgina og lýsir upplifun sinni á Facebook.  Hann segir að þeir hafi séð endurlífgunartilraunir á manninum, bráðaliðar hafi komið á vettvang og svo hafi þyrla Landhelgisgæslunnar komið. „Þeir ýttu okkur burt og við fengum litlar upplýsingar um hvað var að gerast,“ skrifar Hacker á Facebook-síðu sína.

Breska blaðið Daily Mail slær færslu Hackers upp á vefsíðu sinni en vefurinn er einn sá mest lesni í heiminum. Þar er jafnframt haft eftir Hacker að vegna mikils fjölda af köfurum þennan dag hafi þeir neyðst til að bíða á trébekkjum eftir að röðin kæmi að þeim.  

Einar Ásgeir Sæmundsen, fræðslustjóri þjóðgarðsins, sagði í samtali við fréttastofu á mánudag að fólk í þröngum búningum hefði fallið í yfirlið á meðan það biði eftir að fara ofan í Silfru.

Blaðið vitnar jafnframt í ónefndan þyrluflugmann hjá Landhelgisgæslunni sem segir að öllum sé hleypt ofan í Silfru - líka þeim sem kunni ekki einu sinni að synda. Þetta er í samræmi við ummæli sem Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, lét falla í útvarpsviðtali í í vikunni. „Ég verð bara að segja ykkur eins og er það eru margir sem fara þarna niður og þeir bara kunna ekki að synda.“

Ritstjórn Wikipediu hefur lýst því yfir að vefur Daily Mail sé ónothæf heimild þar sem fréttir blaðsins séu almennt óáreiðanlegar. Engu að síður er talið að um 190 milljónir fari inn á vefinn í hverjum mánuði.