Ferðamaður í hættu á Sólheimajökli

11.02.2016 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson  -  RÚV
Ferðamaður var hætt kominn við Sólheimajökul í dag. Hann var að taka mynd og hætti sér of langt inn í sprungu við jaðar jökulsins sem varð til þess að hann féll í gegnum þunnan ís sem var þar yfir vatni. Sagt er frá þessu á Baklandi Ferðaþjónustunnar.

Maðurinn fór á bólakaf og gat ekki náð sér uppúr aftur.  Kona sem var með honum hrópaði á hjálp. Leiðsögumenn sem voru að koma niður af jöklinum með hóp ferðamanna komu honum til hjálpar. Á meðan annar leiðsögumaðurinn var að gera línu klára til að draga hann uppúr náði hann að klóra sig upp á ísinn nóg til þess að hinn leiðsögumaðurinn gat kippt honum upp með handafli án þess að hætta sér of langt út á ísinn. Maðurinn flýtti sér á brott eftir björgunina og virtist ekki hafa orðið meint af volkinu.  

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV