RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Ferðaenska og druslurnar í druslugöngunni

Druslugangan leiddi í ljós að orðið drusla hefur aðra merkingu í hugum ungs fólks en þeirra sem eldri eru. Í stað þess að merkja að ganga illa um eða vera illa til fara hefur það fengið sambærilega merkingu og orðið lauslætisdrós.

Íslendingarnir og enskan

Við höfum áður rætt um að það geti verið erfiðleikum bundið að tala íslensku á ferðamannastöðum á Íslandi.

Fjölmargir útlendingar koma til landsins og setjast hér að um lengri eða skemmri tíma. Þeir fá sér vinnu, sækja skóla og taka þátt í þjóðlífinu af fullum krafti. Flestir leggja talsvert á sig til að læra málið sem hér er talað. Fólk fer á lengri eða styttri námskeið, sumt jafnvel í fullt nám til að læra málið, ná tökum á því og geta átt samskipti við innfædda.

En hvernig stöndum við okkur í því að gefa fólki, sem flyst hingað og leggur sig fram um að aðlagast samfélaginu, tækifæri til þess að ná tökum á málinu? Mig grunar að við stöndum okkur ekkert sérstaklega vel. Um leið og við heyrum að útlendingur hefur ekki mjög gott vald á málinu skiptum við oftast yfir í ensku, alveg óháð því hvort þessi útlendingur kann eitthvað fyrir sér í ensku eða ekki. Segjum sem svo að við komum á veitingastað og starfsmaðurinn sem tekur á móti okkur og vísar okkur til sætis er útlendingur. Hann býður góðan dag á íslensku með hreim og réttir okkur matseðilinn en gefur til kynna að hann sé ekki sérlega sleipur í íslenskunni. Hvað gerist svo þegar við pöntum? Segjum við á ensku hvað við viljum eða á íslensku?

Þegar við skiptum við verslanir og veitingastaði á Íslandi ættum við að nota íslensku eins mikið og kostur er. Og það er hægt að ganga býsna langt í samskiptum á íslensku við útlendinga. Á veitingastaðnum má nefna réttinn sem á að panta á íslensku og benda um leið á hann á matseðlinum. Það má biðja um vatn, gos eða vín með matnum á íslensku og nefna það svo á ensku (eða öðru máli) ef þjónninn skilur ekki.

Við getum vel verið kurteis og talað íslensku um leið. Við erum ekki kennarar starfsmanna í verslun og þjónustu heldur viðskiptavinir. Við þurfum ekki að leiðrétta framburð, beygingar eða orðaröð. Allt sem við þurfum að gera er að nota íslenskuna eins mikið og lengi og hægt er og grípa til annarra mála þegar skilning á henni þrýtur. Gefum fólki sem vill læra málið okkar tækifæri til þess að nota það því að það er besta leiðin til að ná tökum á því.

 

Druslurnar í druslugöngunni

Druslugangan er nýafstaðin og eitt af því sem hún kveikti umræður um var notkun orðsins drusla. Drusla er þýðing á enska orðinu slut og druslugangan kallast svo eftir slutwalk sem fyrst var farin í Kanada 2011. Margt fólk á miðjum aldri og eldra leggur ekki þá merkingu í þetta orð sem yngra fólk virðist gera. Það skilur orðið drusla frekar sem tuska, léleg flík, duglaus eða ónýt manneskja eða lélegur bíll. Og margir leggja í það merkinguna subba, sóði eða manneskja sem gengur illa um, hefur allt í drasli.

En í munni þeirra kvenna, á öllum aldri en einkum ungra, sem nú rísa upp og mótmæla því að þær beri ábyrgðina á því að vera nauðgað, merkir drusla beinlínis það sem á tilgerðarlegra máli hefur hefur verið kallað lauslætisdrós en líka mörgum öðrum verri nöfnum í fyrirlitningartón.

Hvaða merkingu svo sem fólk leggur í orðið drusla er að minnsta kosti ljóst að hún er alltaf neikvæð. Og með því að varpa ábyrgðinni á nauðgun á konur út af útliti eða hegðun er verið að setja þær undir mæliker með neikvæðum formerkjum. Nú hafa konur valið að nota orðið drusla um sjálfar sig til að vekja athygli á málstaðnum. Þegar orðið sem þær nota verður að bitbeini er beinlínis verið að beina athyglinni frá málstaðnum. Karp um nýja merkingu orðsins drusla getur orðið til þess að drepa málinu á dreif. Orðið hefur margvíslegar og mismunandi merkingar fyrir, það getur vel bætt við sig einni enn. Hópar sem berjast fyrir því að réttindi þeirra séu virt ættu að fá að velja orðin sem þeir kjósa að nota um sjálfa sig.

Karlkynsorð sem merkir drusla?

Í framhaldi af druslugöngunni spurði maður á Facebook-síðu sinni hvort karlkyns drusla væri ekki slöttólfur. Sá sem þetta sagði var að leika sér með enska orðið slut. En það var áhugavert að fylgjast með viðbrögðunum. Fólk fór nefnilega að leita logandi ljósi að rétta karlkynsorðinu sem gæti samsvarað kvenkynsorðinu drusla.

Það er nefnilega þannig, eða hefur að minnsta kosti verið til skamms tíma, að í íslensku eru mjög fá kvenkynsorð sem hægt er að nota um karlmenn þótt hægt sé að nota fjölmörg karkynsorð jafnt um karla sem konur. Eftirminnilegustu kvenkynsorðin sem duga um karlmenn eru orðin hetja og gunga. Þetta virðist þó vera að breytast smátt og smátt. Málfræðilega kynið er farið að víkja fyrir því líffræðilega á sumum sviðum málnotkunar. Það eru margar ástæður fyrir þessu og eflaust hafa bæði málfræðingar og sálfræðingar skoðanir á og kenningar um af hverju þetta gerist. En það kæmi ekki á óvart þótt meginástæðuna væri að finna í því hreyfiafli sem er farið af stað í samfélaginu og þjóðfélagsumræðunni. Umræða um jafnrétti, kynhneigð, andlegt og líkamlegt ástand fólks, viðhorf og fordóma í garð þeirra sem skera sig á einhvern hátt úr fjöldanum og af einhverjum ástæðum hefur vaxið og tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Þegar sú umræða opnast upp á gátt verður ekki hjá því komist að það tungumálið verði fyrir áhrifum. Sú breyting hefur nú orðið á, og má mögulega þakka druslugöngunni, að karlar geta notað kvenkynsorð um sig, neikvætt orð sem annars hefur notað um konur fyrir einhverja meinta hegðun. Í kynningarherferðinni fyrir druslugönguna birtust myndir af stjórnmálamönnum, tónlistarmönnum, baráttumönnum fyrir jafnrétti og mannréttindum og fleira fólk af báðum kynjum, undir yfirskriftinni „Ég er drusla“. Kynið skiptir ekki máli. Ef einhver vill sýna samkennd með þeim sem hefur verið nauðgað, konum jafnt sem körlum, getur hann sagst vera drusla, hvers kyns sem hann er. Og einmitt þannig breytist málið og þróast.

 

29.07.2015 kl.17:14
Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútgáfan