Ferðaðist hátt í þúsund kílómetra leið

17.02.2017 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Það er oft sagt að kötturinn fari sínar eigin leiðir. Það er í það minnsta ekki ofsögum sagt í tilfelli Peppers, hollensks kattar sem fannst nýverið í Austurríki eftir um eitt þúsund kílómetra ferðalag.

Pepper fannst ráfandi um í hestagirðingu í Amstetten í Austurríki á dögunum. Hann var magur og illa til reika og var komið undir dýralæknishendur hið snarasta. 

„Hann var satt að segja agalegur. Það var erfitt að ná honum og hann klóraði mikið. Hann var mjög svangur,“ segir dýralæknirinn Konrad Hehenberger. 

Pepper fannst í hestagerði og læknarnir héldu í fyrstu að hann væri gæludýr á sveitabæ í nágrenninu. Á röntgenmynd sást að örflaga hafði verið grædd í kisa og að flagan var merkt Hollandi. Við leit í gagnabanka þar í landi kom í ljós að þetta var hann Pepper, sem hvarf að heiman fyrir um sex mánuðum síðan.

„Eigandinn ætlaði ekki að trúa því þegar við höfðum samband við hana. Við sendum henni myndir og hún bar samstundis kennsl á Pepper,“ segir Katharina Zoechling, dýralæknir.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

 

Pepper á því umtalsvert ferðalag að baki en um 980 kílómetra leið er frá heimaslóðum hans í Tilburg í Hollandi og til Aschback-Markt í Amstetten í Austurríki.

Eigendurnir voru himinlifandi og eru nú á leið akandi til að sækja köttinn. Hvort þau fari sömu leið og Pepper fór til Hollands er hins vegar ekki vitað því Pepper er þögull sem gröfin um hvað á daga hans dreif þessa sex mánuði á ferðalagi.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV