Fer fram á afsögn forseta GSÍ

09.01.2016 - 14:24
Mynd með færslu
Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ.  Mynd: Golfsamband Íslands  -  GSÍ
Margeir Vilhjálmsson, stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur, ritar harðorðan pistil á vefsíðuna Kylfingur.is í dag þar sem hann fer fram á afsögn forseta Golfsambands Íslands.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, var í viðtali við Markaðinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, í vikunni og kom fram í máli Hauks að unnt væri að reka golfíþróttina án opinbers stuðnings.

Við þessi ummæli er Margeir verulega ósáttur og skrifar: „Í fáum íþróttagreinum leggja iðkendur jafn mikið til reksturs mannvirkjanna og gert er í golfi. Sundiðkendur þurfa ekki að reka sundlaugarnar. Knattspyrnumenn þurfa ekki að reka vellina eða knatthúsin. Handbolta- og körfuknattleiksiðkendur þurfa ekki að sjá um rekstur íþróttahúsanna. Golf er næst fjölmennasta íþróttagrein landsins og þar halda félagsmenn golfklúbbanna uppi rekstri mannvirkjanna að lang mestu leyti. Rekstrarstyrkir sveitarfélaganna eru fátæklegir og þar má gjarnan bæta í en vonlaust væri að halda úti rekstri margra golfklúbba án þeirra.“

Margeir var í framboði gegn Hauki til embættis forseta GSÍ haustið 2013. Hann segir málflutning forseta GSÍ opinbert uppsagnarbréf.

„Sú staðreynd að æðsti maður golfhreyfingarinnar á Íslandi hafi hvorki betri sýn, skynbragð né skilning á íþróttinni en raun ber vitni í téðu viðtali er í besta falli sorgleg. Þetta viðtal ætti að mínu mati ekki að túlka sem neitt annað en opinbert uppsagnarbréf, en svo verður nú líkast til ekki. Við golfklúbbana á Íslandi er því ekki hægt að segja annað en: „Þykir það leitt, en þið kusuð hann.“

Pistilinn í heild sinni má lesa hér

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður