Fellibylurinn Max nálgast Mexíkó

14.09.2017 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: earth.nullschool.net
Hitabeltislægðin Max sem myndaðist undan suðvesturströnd Mexíkó er orðin að fyrsta stigs fellibyl. Um hádegi var vindhraðinn orðinn 34 metrar á sekúndu. Max var þá um níutíu kílómetra suðvestur af Acapulco og mjakaðist í austurátt.

Yfirvöld í Mexíkó hafa gefið út óveðursviðvörun á strandlengjunni milli Zihuatanejo og Punta Maldonado. Búist er við að íbúar á svæðinu fari að finna fyrir fellibylnum innan hálfs sólarhrings. Útlit er fyrir að yfirborð sjávar hækki töluvert meðan hann fer yfir. Einnig er spáð ausandi rigningu, 12 til 25 sentimetrum.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV