Féll 150 metra með snjóflóði en slapp ómeiddur

13.02.2016 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: úr einkasafni  -  RÚV
Snjóðsleðakappi komst í hann krappann í gær nærri Skjaldbreið þegar stærðarinnar snjóflóð féll. Maðurinn fór um 150 metra með flóðinu en hann þakkar góðum búnaði því að ekki fór verr. Maðurinn var með svokallaðan snjóflóðapoka og snjóflóðaýlu sem gerðu það að verkum að félagar hans gátu grafið hann upp örfáum mínútum eftir að flóðið féll.

„Ég var kominn mjög ofarlega í eina hlíð þegar hún fór af stað,“ segir maðurinn sem kýs að láta nafn síns ógetið. „Ég náði að snúa sleðanum við og reyndi að keyra út úr flóðinu. Það tókst ekki og ég fór einhverja 100 metra eða meira á sleðanum. En ég náði að opna pokann minn strax og hékk svo á sleðanum eins lengi og ég gat.“

Snjóflóðapoki er sérútbúinn með tveimur loftbelgjum sem blásast út. Belgirnir gera það að verkum að líklegra er að einstaklingur endi ofar í snjóflóðinu. „Ég féll svo af sleðanum þarna í restina en út af pokanum var ég ofarlega í flóðinu,“ segir maðurinn en sleðinn grófst undir.

Maðurinn segir það eins og að vera fastur í steypu þegar snjóflóð stoppar. „Maður getur ekkert hreyft sig, alveg pikkfastur. Sem betur fer var ég eins og segi ofarlega þannig að önnur hendin var laus. Ég gat notað hana til að moka frá vitunum.“

Maðurinn segist oft að hafa séð smá spýjur en aldrei flóð af þessari stærðargráðu. „Þetta var óneitanlega ónotaleg tilfinning. Þegar maður er inni í miðju flóðinu sér maður ekkert, kófið er svo mikið. Maður veit ekkert hvað kemur næst. Ég vissi til dæmis af grjóti þarna fyrir neðan en maður veit ekkert hvað gerist næst.“

Hann slapp lítilega lemstraður úr flóðinu og þakkar góðum búnaði að ekki fór verr. „Ekki spurning. Líka allir sem voru með mér voru vel búnir. Með ýlur, stangir og skóflur.“

Maðurinn segir svona atvik vissulega taka aðeins kjarkinn úr mönnum. „Svona þann daginn. En er þetta ekki eins og með hestamennskuna. Ef maður dettur af baki þá þarf maður að fara strax á bak aftur til að vinna bug á hræðslunni.“

Ríkarður Sigmundsson starfar hjá Garminbúðinni og sérhæfir sig í snjóflóðabúnaði. Hann segir notkun snjóflóðapoka sífellt vera aukast. Bæði hjá þeim sem aki snjósleða og eins þeim sem fari á skíði utan skíðasvæða.

„Það er þó oftast talað um hina heilögu þrenningu í snjóðflóðavörnum. „Það er ýlan, stöngin og skóflan.“ Ríkarður segir að ýlan virki þannig að þegar viðkomandi lendi í flóði sendi hún frá sér merki. Ferðafélagar eða leitarmenn stilli þá sínar ýlur frá því að senda boð yfir á að móttaka þau og finni þannig viðkomandi.

Stórt snjóflóð féll á skjaldbreiðar svæðinu í gær og fór einn maður niður með því ca 150m hann fannst stuttu seinna me...

Posted by Víkingasveitin myndir on 13. febrúar 2016

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV