Fékk milljón í sekt fyrir daður í beinni

05.01.2016 - 20:05
Chris Gayle, liðsmaður krikketliðsins Melbourne Renegades í Ástralíu, hefur verið sektaður um 7.200 Bandaríkjadali eða tæplega eina milljón króna eftir að hafa daðrað og boðið fréttakonu á stefnumót í beinni útsendingu.

Gayle var í viðtali hjá fréttakonunni Mel McLaughlin í beinni útsendingu í áströlsku krikketdeildinni þegar hann hóf að daðra og bauð að lokum McLaughlin í drykk að útsendingu lokinni.

Þetta fór ekki vel í stjórnendur Melbourne Renegades liðsins sem brugðust við með því að sekta Gayle fyrir ósæmilega hegðun. Gayle hefur beðist afsökunar á atvikinu en segir jafnframt að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu.

„Það var ekki ætlun mín að sýna Mel vanvirðingu og ef henni leið þannig þá biðst ég afsökunar. Þetta var einfaldlega grín,“ sagði Gayle. McLaughlin er ekki skemmt og kvaðst ekki hafa átt von á þessari framkomu frá leikmanninum.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður