Fékk leikfangabíl eftir 40 ára starf

04.01.2016 - 20:40
„Það ánægjulega stendur upp úr," segir aðalvarðstjóri Slökkviliðs Akureyrar sem fagnar 40 ára starfsafmæli í dag. Hann segist hafa íhugað að hætta þegar umræðan um slökkviliðið var hvað verst fyrir fáeinum árum.

Aðalvarðstjórinn Viðar Þorleifsson ætti víst að kunna að setja saman leikfangaslökkviliðsbílinn, sem hann fékk að gjöf vegna 40 ára starfsafmælis hjá slökkviliði Akureyrar. Hann man tímana tvenna en segir að það góða standi upp úr.

„Skemmtilegast er að vera innan um félagana, þetta er góður vinnustaður og góðir vinnufélagar. Þannig að, bara margt hér inni sem er mjög skemmtilegt að gera og á þessum vettvangi. Það er auðvitað til líka sem er miður skemmtilegt, en það stendur upp úr sem er ánægjulegt,“ segir Viðar.

Umræðan um slökkviliðið og starfsanda þess hefur verið fremur neikvæð síðustu ár en Viðar hefur haft fimm slökkviliðsstjóra á þeim tíma sem hann hefur starfað hjá slökkviliðinu og þar af fjóra síðustu þrettan ár. Sjálfur íhugaði hann að hætta vegna þessa.

„Jú, á tímabili langaði mig að gera það. En ég var hérna áfram að beiðni góðra manna, þeim hefur kannski fundist einhver styrkur í mér,“ segir Viðar.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur það verið til umfjöllunar að undanförnu að gera þurfi starfslokasamninga við slökkviliðsmenn sem komnir eru yfir sextugt. Viðar er þó sjálfur í fullu fjöri og sér ekki fyrir sér að hætta alveg strax.

„Það er hægt að sinna þessu ef menn leggja sig mikið fram við það. Ég er kannski ekki í fremstu víglínu en það er margt annað hægt að gera en vera í reykköfuninni beint, það er margt annað sem þarf að gera, aðstoða og útrétta,“ segir Viðar.