Feimni við að tala af alvöru um varnarmál

03.04.2017 - 12:23
Nýjar aðstæður hafa skapast í öryggismálum á Norður-Atlantshafssvæðinu. Rússar hafa aukið hernaðarumsvif sín og í Bandaríkjunum er forseti sem er óútreiknanlegri en forverarnir. Margt bendir til að Rússar hafi með beinum hætti haft áhrif á forsetakosningarnar vestanhafs. Og við bætist óvissa um þróun Evrópusambandsins eftir brotthvarf Breta. Kristrún Heimisdóttir, sem er rannsóknarfélagi í lögfræði við Columbia-háskóla í New York, ræddi á Morgunvaktinni á Rás 1 þessa nýju stöðu í varnarmálum.

Frá því að varnarliðið hvarf frá Keflavíkurflugvelli hafa Íslendingar sjálfir borið ábyrgð á eigin vörnum og í gildi er tvíhliða herverndarsamningur við Bandaríkin. Áherslur NATO hafa að verulegu leyti færst suður að Miðjarðarhafi og þróun stjórnmála í Bandaríkjunum eftir kjör Donalds Trump hefur skapað óvissu. „Hvað þýðir það fyrir okkur? Mitt svar er að við verðum að hugsa miklu dýpra og taka meiri eigin ábyrgð á því að skilja hvað er að gerast í kringum okkur. Ekki dugar að tala bara alltaf um eitthvert hernaðarbrölt, sem við eigum ekki að hafa neitt vit á,“ segir Kristrún Heimisdóttir. Hún bendir á að Rússar fylgi tiltekinni hernaðaráætlun,  hafi endurvakið svokallað bastion-kerfi sitt, eða virkis-hugmyndina. Í henni felist að Rússar þenja sig út á Norður-Atlantshafi til þess að tryggja að þeir geti t.d. lokað umferð ef spenna eykst. Þetta er hugmynd í anda kalda stríðsins. Pútín vill að Rússar verði jafnvígir Bandaríkjamönnum. En nú síðast hefur auðvitað vakið furðu að margt bendir til þess að Rússar hafi haft áhrif á bandarísku forsetakosningarnar. Kristrún segir:

„Staðan í bandarískum stjórnmálum er með hreinum ólíkindum. Þá á ég ekki síst við þátt Rússa í öllu saman. Sem er nánast þannig að það hefði enginn maður komist upp með að skrifa kvikmyndarhandrit sem myndi lýsa svona atburðarás.“ En þessi furðulega atburðasrás og óvissan í kringum þetta valdamesta embætti hins vestræna heims, forsetaembættið í Bandaríkjunum ætti að vekja okkur til umhugsunar.

 „Þetta skapar vissa ringulreið og það er í sjálfu sér háskalegt.“

Kristrún Heimisdóttir segir að þó stærstu ógnir við Ísland séu loftslagsbreytingar og möguleg mengunarslys í hafinu í kringum landið, þá verðum við skilja hvað sé að gerast í heiminum. Skilja hvað Rússar séu að gera og skilja hvernig Bandaríkin bregðast við. Í því sambandi blasir við að Bandaríkjamenn hafi aukið viðveru sína í Keflavík vegna umferðar rússneskra kafbáta. Og Kristrún bendir á að Rússar hafi lengi ögrað með því að fljúga eins nálægt okkar svæði og þeir mögulega geta.

 „Við verðum að skilja hvað þeir eru að hugsa.“

„Það er ekki hægt að láta þetta mál liggja í láginni og tala ekki um það af því að það er hernaðarbrölt, eins og það sé einhver barnaleikur sem engu máli skipti. Það er grunnhyggni sem við getum ekki leyft okkur,“ sagði Kristrún Heimisdóttir á  Morgunvaktinni. Íslendingar hafi látið eins og Bandaríkjamenn væru forsjárforeldrar þeirra í varnar- og öryggismálum. Þó hafi ýmislegt jákvætt verið gert. Stofnað hafi verið þjóðaröryggisráð, mótuð þjóðaröryggisstefna og Landhelgisgæslunni verið falin ýmis verkefni. „Það er búið að stíga mikilvæg skref en feimnin er ennþá fyrir hendi í pólitíkinni. Feimnin við það að tala um þetta af alvöru. Um leið og notað er orðið hernaðarbrölt þá er verið að koma sér undan því að tala um veruleikann í málinu. Það getur enginn stjórnmálamaður á Íslandi skilað auðu á þann hátt. Við verðum að ræða stefnuna. Hvaða stefnu getur herlaust, lítið ríki, valið sér. Hvernig eigum við að haga okkur í heimi sem er víðsjárverðari en hann hefur áður verið. Af því að Ísland getur aldrei byggt á neinu öðru heldur en öryggissamfélagi við önnur ríki.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi