Fegurðarsamkeppni eða pólitík

29.02.2016 - 16:44
Stjórnmálafræðingur segir að forsetakosningarnar gætu orðið fegurðarsamkeppni á vissa hátt ef þeir sem fara í framboð hafi lítinn pólitískan bakgrunn. Annar stjórnmálafræðingur vill fjölga meðmælendum sem frambjóðendur verða að fá. Safna þarf 1500 undirskriftum en miðað við sama hlutfall kjörgenginna manna 1944 ætti fjöldi þeirra nú að verða að lágmarki 4800.

Það styttist í forsetakosningar sem verða eftir fjóra mánuði. Landsmenn munu ganga að kjörborðinu 25. júní eða síðasta laugardaginn í júnímánuði. Í næsta mánuði mun innanríkisráðuneytið auglýsa um tilhögun kosninganna. Um fjölda meðmælenda, kjördag og hvenær framboðsfresturinn rennur út. Væntanlegir forsetaframbjóðendur verða að  vera búnir að ákveða sig og tilkynna framboð fyrir 21. maí. Fyrir þann tíma verða þeir að safna að minnsta kosti 1500 meðmælendum samkvæmt nánari skiptingu milli landsfjórðunga. Sex hafa þegar tilkynnt að þeir ætli að bjóða sig fram og dágóður hópur er volgur fyrir embættinu. Þeir eru sumir að hugsa málið og á aðra hefur verið skorað. Á þessari stundu er því óljóst hverjir verða endanlega í framboði. Eftir 20 ára setu Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum hefur umræðan vaxið um hvert hlutverk forseta eigi að vera. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, telur líklegt að kosningarnar eigi eftir snúast um hlutverk forseta lýðveldisins.

„Við erum enn ekki búin að sjá pólitíska frambjóðendur stíga fram heldur frekar fólk sem er þekkt í þjóðlífinu. Fólk sem er ekki líklegt til að beita embættinu með jafn pólitískum hætti eins og Ólafur Ragnar hefur gert. Það er hins vegar ljóst að það er viss eftirspurn eftir því í samfélaginu og skiptar skoðanir um það hvernig menn vilja hafa forsetaembættið. Allir frambjóðendur munu  þurfa að svara erfiðum spurningum um það hvernig þeir sjá að embættið þróist á næstu árum,“ segir Gunnar Helgi.

Fegurðarsamkeppni

Eftir setu Ólafs er byrjað að tala um annars vegar pólitískan forseta og hins vegar forseta sem sameiningartákn. Vigdís Finnbogadóttir myndi klárlega falla undir síðari skýringuna. Gunnar Helgi segir að hvort umræðan verði um forsetann sem sameiningartákn eða sem pólitískan fari mikið eftir því hverjir gefi kost á sér.

„Ef við fáum fyrst og fremst vel þekkt og velmetið fólk sem hefur ekki mikinn pólitískan bakgrunn þá mun þetta verða mikil persónubarátta. Þetta verður fegurðarsamkeppni á vissan hátt. Hins vegar ef við fáum mjög ákveðinn pólitískan frambjóðanda sem hefur umtalsvert fylgi þá getur þetta orðið mun flóknari kosningabarátta. Þá verða frambjóðendur að svara erfiðum spurningum um hvert hlutverk forsetans á að vera í stjórnskipuninni. Íslenska stjórnskipunin er mjög ógegnsæ og flókin hvað þetta varðar,“ segir Gunnar Helgi. 

Vill meirihluta á bak við kjörinn forseta

Það er óljóst hvernig mál þróast og hvort tekist verði á um pólitískan eða forseta sem sameiningartákn. Eitt virðist þó vera nokkuð ljóst. Mjög líklegt er að frambjóðendur verði  talsvert margir að þessu sinni. Þegar Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn 1952 voru fjórir í framboði, tveir þegar Kristján Eldjárn var kjörinn 1968, fjórir buðu sig fram þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin 1980 og fimm þegar Ólafur Ragnar var kjörinn fyrir hartnær 20 árum.  Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er réttkjörinn forseti, stendur skrifað í stjórnarskránni og hefur staðið þar í 70 ár. Því fleiri sem er í framboði aukast líkurnar á því að svo geti farið að sá sem endanlega verður kjörinn fái ekki ýkja mörg atkvæði. Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn með rétt rúmum 48 prósent atkvæða. Vigdís fékk tæp 34 prósent og Ólafur Ragnar tæplega 42 prósent. Stefanía Óskarsdóttir dósent í stjórnmálafræði, vill að stjórnarskránni verðir breytt þannig að kjörinn forseti verði að hafa meirihluta atkvæða á bak við sig.

„Það var lagt til í upphaflegum drögum að nýrri stjórnarskrá 1944 að þingið myndi kjósa forseta. Þá þurfti sá sem hlyti kosningu að hafa meirihlutann á bak við sig. Eða með öðrum orðum þá voru taldar líkur á að það þyrfti nokkrar kosningar til að ná fram þessum meirihluta í þinginu,“ segir Stefanía.

Þarf hærri þröskuld

Í aðdraganda  forsetakosninga hefur umræðan um fjölda meðmælenda skotið upp kollinum. Sá sem fer í framboð þarf að minnsta kosti 1500 meðmælendur og í mesta lagi 3000 eftir tiltekinni skiptingu milli fjórðunga landsins. Þetta ákvæði hefur verið í stjórnarskránni frá 1944 en þá voru Íslendingar tæplega 128 þúsund. Nú er fjöldi landsmanna tæplega 230 þúsund. 1944 voru rúmlega 74 þúsund á kjörskrá þegar kosið var um stofnun lýðveldisins. 2% af þeim fjölda er um 1500 eða lágmarks meðmælendafjöldi vegna forsetaframboðs. 2013 voru á kjörskrá um 238 þúsund manns. Búast má við því að eitthvað fleiri verði kosningabærir fyrir forsetakosningarnar. Miðað við kjörskrána 2013 þyrftu forsetaframbjóðendur að  safna tæplega 4800 meðmælendum ef miðað er við hlutfallið fyrir 1944. Stefanía segir að krafan um 1500 meðmælendur sé of lág.

„Já, mér finnst ástæða til að breyta þessu. Þetta er allt of lágt og í rauninni býður upp á það að fólk sem á kannski lítið erindi í framboð býður sig fram. Hærri þröskuldur eykur líkurnar á að það sé einungis frambærilegt fólk sem á virkilega erindi í þessa baráttu sem leggur út í þetta,“ segir Stefanía Óskarsdóttir.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi