Feðgar flýja land vegna ofsókna

12.09.2010 - 19:01
Mynd með færslu
Feðgar af kúbverskum uppruna neyddust til að flýja land í dag vegna kynþáttaofsókna. Ráðist var að heimili þeirra í tvígang í gær, rúður brotnar og þeim hótað lífláti. Tveir karlmenn eru í haldi lögreglu vegna málsins.

Feðgarnir eru báðir íslenskir ríkisborgarar og hafa búið hér í yfir áratug. Forsaga málsins er sú að sonurinn, sem er 18 ára, hefur átt vingott við íslenska stúlku. Samband þeirra mun hafa verið umdeilt vegna litarháttar hans, meðal annars í framhaldsskólanum þar sem stúlkan stundar nám. Parið hefur orðið fyrir aðkasti vegna þessa. Um sexleytið í gærkvöld voru rúður brotnar á heimili piltsins og fjölskyldu hans og klukkan tvö í nótt var útidyrahurð þar brotin upp. Þá fékk pilturinn morðhótanir. Feðgarnir fóru af landi brott í dag og fylgdi lögreglumaður þeim út á flugvöll. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið.

Karlmaður á miðjum aldri og piltur á aldur við soninn voru handteknir í dag en hafa ekki verið yfirheyrðir. Þeir eru hvorki taldir hafa tengsl við stúlkuna né feðgana.