Federer vann Wimbledon í áttunda skiptið

16.07.2017 - 15:04
epa06091268 Roger Federer of Switzerland celebrates with the championship trophy following his victory over Marin Cilic of Croatia in the men's final of the Wimbledon Championships at the All England Lawn Tennis Club, in London, Britain, 16 July 2017
 Mynd: EPA
Svisslendingurinn Roger Federer vann í dag Wimbledon mótið í áttunda skiptið og þar með sinn 19 risatitil. Sigurinn var einstaklega sannfærandi en vann hann öll sett dagsins, 6-3, 6-1 og 6-4. Mótherji Federer var hinn króatíski Marin Čilić. Sá króatíski virtist meiðast í fyrsta setti og náði í raun aldrei að jafna sig. Hann harkaði af sér og kláraði viðureignina án þess þó að ógna Federer af neinu viti.

Fyrir daginn í dag höfðu þeir Federer og Čilić mæst sjö sinnum. Í sex af þeim skiptum hafði Federer farið með sigur af hólmi og því bjuggust flestir við sigri hans í dag. Fáir bjuggust þó við að sigurinn yrði jafn öruggur og raun bar vitni.

Jafnræði í fyrstu lotu

Í byrjun virtist Čilić ætla að veita Federer verðuga mótspyrnu og þurfti Federer að hafa sig allan við til að vinna fyrsta sett dagsins. Það var um miðbik fyrsta settsins sem Federer tók völdin og vann settið á endanum 6-3.

Í öðru settinu má deila um hvort Čilić hafi misst tökin eða Federer tekið öll völdin. Čilić virtist verða fyrir meiðslum í settinu og kveinkaði sér eftir hverja uppgjöf. Federer nýtti sér það og gekk á lagið.

epa06091115 Marin Cilic of Croatia receives treatment as he plays Roger Federer of Switzerland in the men's final of the Wimbledon Championships at the All England Lawn Tennis Club, in London, Britain, 16 July 2017.  EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA

Á einum tímapunkti í öðru setti þá brast Króatinn hreinlega í grát. Hann virtist alveg við það að gefast upp en eftir stutta hvíld og gott spjall við þjálfara sinn þá hélt hann áfram. Áhorfendum til mikillar gleði en það vill enginn sjá tennisspilara hætta leik vegna meiðsla.

Federer virtist þó lítið kippa sér upp við meiðsli Čilić eða viðbrögð hans enda Federer staðráðinn í að landa sínum áttunda Wimbledon titli. Sama hvað. Hann vann svo annað settið með miklum yfirburðum, 6-1.

Á milli annars og þriðja setts tók Čilić lækna hlé (e. medical time-out). Þá var skipt um umbúðir á vinstri fæti og séð til þess að hann gæti klárað úrslitaviðureignina. Eftir það virtist Króatinn í töluvert betra standi og stóð hann lengur í Federer en í hinum tveimur settunum. 

Það fór þó svo að Federer vann settið á endanum 6-4 og landar þar með sínum áttunda Wimbledon titli og þar með er hann kominn með 19 risatitla á ferlinum.

epa06088021 Roger Federer of Switzerland celebrates winning against Tomas Berdych of the Czech Republic during their semi final match for the Wimbledon Championships at the All England Lawn Tennis Club, in London, Britain, 14 July 2017.  EPA/TIM IRELAND /
 Mynd: EPA  -  AP POOL