Fasteignamat vatnsréttinda um 2,3 milljarðar

13.01.2016 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Þjóðskrá hefur lokið fasteignamati á vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar og metur réttindin á rúma 2,3 milljarða króna. Fljótsdalshérað getur innheimt fasteignagjöld af réttindunum samkvæmt dómi Hæstaréttar og á inni fasteignagjöld frá Landsvirkjun þrjú ár aftur í tímann, tugi milljóna króna. Fleiri sveitarfélög vilja nú einnig geta innheimt fasteignagjöld af vatnsréttindum og jarðhitahlunnindum.

Fljótsdalshérað og Landsvirkjun deildu um það fyrir dómstólum hvort heimilt væri að leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi sem nýtt væru í virkjunum. Fljótsdalshérað hafði betur en Landvirkjun fagnaði líka niðurstöðunni; að virkjanir myndu skila meiru til nærsamfélagsins. Fyrirtækið hafði samið við Fljótsdalshérað um að útkljá málið fyrir dómstólum og ef dæmt yrði Fljótsdalshéraði í vil gæti það rukkað fasteignagjöld aftur til ársins 2013.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, segir að fasteignamat vatnsréttinda Landsvirkjunar sem nýtt eru í Kárahnjúkakvirkjun og eru á Fljótsdalshéraði sé 1.740.150.000 krónur. Vatnsréttindi eru líka í Fljótsdalshreppi og er fasteignamat þeirra 586.100.000 krónur.

Margrét segir að í fasteignamatinu hafi verið miðað við fallhæð og til hliðsjónar séu niðurstöður dómstóla og nefndar sem mat virði vatnsréttinda fyrir Landsvirkjun og bændur sem áttu réttindin. Nú sé það sveitarfélaganna að ákveða álagningarprósentu af upphæðinni út frá lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Fljótsdalshéraðs, býst við að fasteignagjöldin til sveitarfélagsins verði á bilinu 15-20 milljónir króna á ári en álagningarprósentan hafi ekki verið ákveðin formlega. Gjaldandi getur kært slíka ákvörðun til yfirfasteignamatsnefndar. Grímsnes- og Grafningshreppur hefur nú beðið Þjóðskrá um að meta vatnsréttindi við Sogið og jarðhitahlunnindi við Nesjavallavirkjun.

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV