Fasteignamat Hörpu fellt úr gildi

11.09.2017 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay  -  Pexels
Yfirfasteignamatsnefnd hefur fellt úr gildi fasteignamat Hörpu fyrir árin 2011-2017. Lagt er til að Þjóðskrá taki málið til meðferðar að nýju. Þetta kemur fram í nýjum úrskurði yfirfasteignamatsnefndar.

Lengi hefur verið deilt um fasteignamat Hörpu, en samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár árið 2011 var það rúmlega 17 milljarðar króna. Stjórnendur Hörpu mótmæltu og töldu að fasteignamatið væri of hátt, það ætti með réttu að vera tæpir sjö milljarðar. Upphæð fasteignagjalda miðast við fasteignamat og rekstarvanda Hörpu síðustu ár má að stórum hluta rekja til hárra fasteignagjalda. 

Hæstiréttur ógilti fasteignamatið í fyrra

Forsvarsmenn Hörpu kærðu fasteignamatið fyrst til yfirfasteignamatsnefndar í lok árs 2011 sem staðfesti ákvörðun Þjóðskrár. Þá fóru stjórnendur með málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem hafnaði kröfunni árið 2015. Málinu var hins vegar áfrýjað til Hæstaréttar sem sneri í fyrra dómi Héraðsdóms, fasteignamatið skyldi ógilt. 

Endurútreikningur með nýrri aðferð

Á grundvelli dóms Hæstaréttar endurreiknaði Þjóðskrá fasteignamat Hörpu fyrir árin 2011-2017. Nýja fasteignamatið var reiknað með svokallaðri tekjuaðferð sem hafði verið sérstaklega útfærð fyrir ráðstefnu- og tónlistarhús. Var fasteignamat fyrir árið 2017 ákvarðað 17,8 milljarðar króna og þá var afturvirkum útreikningum beitt, samkvæmt nýju aðferðinni, til að ákvarða fasteignamat fyrir árin 2011-2016. Stjórnendur Hörpu gerði athugasemd við ákvörðunina, sem Þjóðskrá sá ekki ástæðu til að endurskoða, og því skutu stjórnendur málinu til yfirfasteignamatsnefndar þann 20. janúar síðastliðinn. 

Þjóðskrá hafi ofmetið tekjurnar

Stjórnendur Hörpu töldu að rökstuðningur fyrir fasteignamatinu hafi verið ófullnægjandi. Þjóðskrá hafi ofmetið tekjur af fasteigninni og verulegt ósamræmi væri á milli fasteignamats Hörpu og annarra ráðstefnusala í Reykjavík. Þá gagnrýndu þeir að búið hafi verið til sérstakt undirmatssvæði fyrir fasteignina, í stað þess að miða við matssvæði Reykjavíkurhafnar, og að það hafi hækkað fasteignamatið um 30 prósent. Þjóðskrá taldi aftur á móti að við ákvörðunina hafi að öllu leyti verið farið eftir þeim sjónarmiðum sem komu fram í dómi Hæstaréttar frá því í fyrra. Samkvæmt leiðbeiningum dómsins gæfi tekjuaðferðin besta mynd af virði fasteignarinnar. 

Ekki rétt að búa til undirmatssvæði fyrir Hörpu

Yfirfasteignamatsnefnd kemst í úrskurði sínum að þeirri niðurstöðu að tekjuaðferðin sem Þjóðskrá notar gefi glögga mynd af virði eignarinnar. Hins vegar hafi aðferðinni ekki verið beitt í samræmi við leiðbeiningar dómsins. Þannig hafi ekki verið rétt að búa til sérstakt undirmatssvæði fyrir fasteignina, enda er Harpa enn sem komið er eina fasteignin á svæðinu. Í stað þess hefði átt að miða við matssvæði Reykjavíkurhafnar. 

Því kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að endurmat fasteignamats Hörpu fyrir árin 2011-2017 er fellt úr gildi og lagt til að Þjóðskrá taki málið til meðferðar að nýju.