Farþegaþotu snúið við vegna leysigeisla

15.02.2016 - 02:17
Mynd með færslu
 Mynd: BBC
Snúa þurfti farþegaþotu breska Virgin-flugfélagsins aftur til Heathrow-flugvallar í Lundúnum skömmu eftir flugtak eftir að annar flugmaður hennar blindaðist af leysigeisla frá jörðu, aðeins nokkrum mílum utan við höfuðborgina. Vélin var á leið til New York, en ákveðið var að snúa henni við af öryggisástæðum, að sögn upplýsingafulltrúa flugfélagsins.

 Lundúnalögreglan tilkynnti atvikið á twitter og í yfirlýsingu frá Virgin segir að flugfélagið vinni nú að því í samstarfi við lögreglu að finna út úr því hvaðan geislinn barst.

Víðast hvar er stranglega bannað að beina leysigeislum að flugvélum. Tæki og tól sem gefa slíka geisla frá sér, svo sem rafræn bendiprik, eru algeng og fást víða. Geislar þeirra eru ekki ýkja sterkir og geta hvorki skaðað flugvélar né sjón þeirra sem um borð eru, en við ákveðnar aðstæður  geta þeir hæglega blindað flugmenn um skamma hríð, ekki ósvipað gamaldags leifturljósi eða flassi á ljósmyndavélum sem hleypt er af í návígi. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV