Farið að flæða yfir veginn í Gufudalssveit

14.03.2016 - 00:02
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Gísli Einarsson, fréttamaður, er á ferðinni í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum og ætlar að reyna að komast til Patreksfjarðar þar sem lýst hefur verið yfir hættustigi vegna hættu á krapaflóðum. Þar var 21 hús rýmt og 31 gistir í fjöldahjálpastöð Rauða Krossins. Gísli náði myndum af því þegar flæddi yfir veginn á tveimur stöðum í sveitinni en fram kemur á vef Veðurstofunnar að vatnsborð nokkurra áa hafi hækkað með kvöldinu.

Þar segir enn fremur að búist er við áframhaldandi hláku en þó aðallega á Snæfellsnesi, Hvítársvæðinu (bæði vestan og sunnan við Langjökul), á Norðurlandi Vestra sem og á vatnasviði Norðurár í Borgarfirði, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul.

Veðurstofan vekur athygli á því að rennsli í ám og vatnsföllum geti enn aukist verulega sem eykur hættu á að þær flæði yfir bakka sína og jafnvel varnargarða. Þá er viðbúið að aukið álag verði á afrennsliskerfi bæja. Vegfarendur eru hvattir til að sýna aðgát.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV