Fangageymslur fullar eftir nóttina

18.06.2017 - 07:53
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Mikill erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Töluvert var um ölvun og komu upp sex mál í Laugardal þar sem afskipti voru höfð af fólki vegna vörslu fíkniefna. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að fangageymslur lögreglu við Hverfisgötu í Reykjavík og í Hafnarfirði séu fullar.

Tilkynnt var um innbrot á heimili í Austurbæ Reykjavíkur um klukkan hálf ellefu í gærkvöld. Ungur maður í annarlegu ástandi var handtekinn á vettvangi. Klukkutíma síðar var tilkynnt um innbrot á bílaleigu í Höfðahverfi í Reykjavík. Þar hafði rúða verið brotin og farið inn. Þjófurinn skarst á höndum og var töluvert blóð á vettvangi. Bíllyklum var stolið í innbrotinu. Stuttu síðar var maður handtekinn í Breiðholti vegna annars máls og reyndist hann vera með bíllyklana í fórum sínum.

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir