Falur: Tjái mig ekki meðan reiðin kraumar

09.01.2016 - 12:39
Mynd með færslu
Falur (í miðjunni)  Mynd: Facebook síða Keflavíkur
Mikil ólga hefur verið í herbúðum kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta að undanförnu og í gærkvöld var þjálfara liðsins, Margréti Sturlaugsdóttur sagt upp störfum. Eiginmaður hennar sem jafnframt er formaður körfuknattleiksdeildar, Falur Harðarson, ákvað í kjölfarið að segja af sér.

Falur segir að það hafi reyndar staðið til að láta af störfum formennskunnar á aðalfundi deildarinnar 26. janúar n.k. en fyrir honum hafi sá dagur komið í gær. Falur segir mikla reiði krauma í sér vegna málsins og meðan svo sé kjósi hann að tjá sig ekki frekar.

Í yfirlýsingu á heimasíðu Keflavíkur er sagt frá brottrekstri Margrétar og henni þakkað samstarfið. Marín Rós Karlsdóttir mun stýra liðinu í næsta leik ásamt Sigurði Ingimundarsyni þjálfara karlaliðs Keflavíkur.

Á vef Víkurfrétta segir að á ýmsu hafi gengið í herbúðum Keflavíkur undanfarið og tveir lykilleikmenn liðsins hafi hótað að hætta að spila með liðinu ef Margrét stýrði því áfram. Vefsíðan karfan.is segir að annar þessara leikmanna hafi farið úr húsi í miðjum leik Keflavíkur gegn Grindavík í úrvalsdeild kvenna fyrr í vikunni.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma fréttir berast af deilum milli Margrétar og leikmanna Keflavíkurliðsins en í október sl. yfirgaf Bryndís Guðmundsdóttir liðið og gekk í raðir Snæfells.

Keflavík hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í úrvalsdeildinni og er í 3. sæti.