Fagnar því að herinn setji fjármuni í viðhald

09.02.2016 - 23:27
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að engar viðræður hafa átt sér stað um varanlega endurkomu Bandaríkjahers. Til standi að gera upp flugskýli svo hægt sé að geyma a vellinum stærri og fullkomnari kafbátarleitarvélar sem hingað til hafi aðeins haft stutta viðkomu hér. Hann fagnar því að herinn setji fjármuni í viðhald á vellinum.

„Ég fagna því að það komi peningar frá Bandaríkjamönnum í viðhald á Keflavíkurflugvelli,“ segir Gunnar Bragi. „Fyrirhugaðar framkvæmdir Bandaríkjahers á vellinum snúast um að endurnýja flugskýli svo að hægt sé að geyma öflugri vélar hér,“ segir Gunnar Bragi og vísar þar til P-8 Poseidon kafbátaleitarvéla.

Vefrit hersins, Stars and Stripes, greinir frá því í kvöld að Bandaríkjaher hyggst snúa aftur og koma sér upp aðstöðu á Íslandi fyrir kafbátaleitarvélar. Til að byrja með verði herinn aðeins með tímabundna aðstöðu hér, en gæti seinna meir farið fram á aðstöðu til langframa.

Gunnar Bragði ítrekar að engar viðræður hafi átt sér stað um varanlega aðstöðu og það gerði utanríkisráðuneytið sömuleiðis í yfirlýsingu fyrr í kvöld. Ráðherrann segir þó að ekki sé hægt að útiloka tíðari komur hersins hingað til lands. Þær hafi þó þegar aukist undanfarin tvö til þrjú ár vegna ástands öryggismála í Evrópu.

Bandaríska sendiráðið sendi einnig frá sér yfirlýsingu vegna málsins í kvöld. Þar segir að Bandaríkjamenn og Íslendingar séu nánir bandamenn innan NATO og stöðugt sé verið að endurmeta ástand öryggismála í Evrópu og um heim allan. Það mat sé byggt á síbreytilegum aðstæðum. Stöðugar viðræður eiga sér um flugstöðina í Keflavík.