Fagna þingsályktunartillögu um Laxnesssetur

07.03.2016 - 07:47
Halldór Kiljan Laxness, rithöfundur.
 Mynd: - -  -  Landsbókasafn Landsbókasafn
Mosfellsbær og starfsfólk Gljúfrasteins fagna tillögu til þingsályktunar um Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Í umsögn Mosfellsbæjar segir að ævistarf Halldórs Laxness sé dýrmætur þjóðararfur og að það beri að standa vörð um hann.

Alhliða menningarsetur þar sem áhersla verði lögð á bókmenntir og rannsóknir ásamt umgjörð um ævi og starf Nóbel skáldsins stuðli að því að gera sérstöðu Mosfellsdals í sögulegu og menningarlegu tilliti aðgengilega og sýnilega fyrir bæði heimamönnum og gestum.

Starfsfólk Gljúfrasteins segir í sinni umsögn um þingsályktunartillöguna að Laxnesssetur komi til með að bæta aðstöðu til móttöku gesta og fyrir starfsfólk umtalsvert. Þá verði hægt að bæta aðstöðuna og stórlega auka möguleika á útvíkkun starfseminnar. Meðal annars yrði hægt að taka á móti stærri og fleiri hópum og auka vægi rannsókna og fræðslu í starfinu.

Til þessa hafi starfsmenn haft aðstöðu í bílskúr Gljúfrasteins og lítilli kompu inn af honum. Þá hafi bílskúrinn verið fyrsti viðkomustaður allra gesta og verið sú aðstaða sem hafi verið í boði til að taka á móti hópum sem sæki fræðslu á safninu. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV