Fagna frelsi basknesks aðskilnaðarsinna

06.03.2016 - 00:46
Erlent · Evrópa · Spánn
epa05196571 Leader of the Abertsale Basque separatist party Sortu, Arnaldo Otegi (C) during a political act held in San Sebastian, Basque Country, Spain, 05 March 2016 after being released from the prison of Logrono, in the province of La Rioja last 01
 Mynd: EPA  -  EFE
Þúsundir Baska fögnuðu því á götum San Sebastian að Arnaldo Otegi, pólitískum leiðtoga aðskilnaðarsinna, væri laus úr fangelsi. Otegi sat inni í sex ár fyrir áform sín um að endurreisa pólitískan arm ETA, aðskilnaðarhreyfingar Baska og losnaði út í vikunni.

Yfir tíu þúsund manns komu saman á opnu svæði í San Sebastian í kvöld. Sjálfur kom Otegi á svæðið umkringdur dönsurum í baskneskum þjóðbúningum. 

AFP fréttastofan hermir að um leið og honum var sleppt lausum, í heimabæ hans Elgoibar, hvatti Otegi stuðningsmenn sína til þess að fylgja fordæmi Katalóna. Flokkar aðskilnaðarsinna unnu stórsigur í héraðskosningum í haust.

Þegar Otegi sat inni tjáði hann New York Times að hann stefndi að því að verða fyrsti leiðtogi sjálfstæðs Baskalands. Héraðskosningar verða haldnar í Baskalandi í lok árs. Orðrómur hefur verið uppi um að Otegi bjóði sig fram til forseta héraðsþings Baska. Samkvæmt úrskurði dómara 2009 má hann ekki taka sæti í stjórn héraðsins.

ETA barðist harkalega fyrir sjálfstæði, þá sérstaklega á níunda og tíunda áratugnum, og kostaði hundruð mannslífa með hryðjuverkum sínum og morðum. Pólitískur armur hreyfingarinnar hefur verið bannaður frá árinu 2003. Á tíunda áratugnum kallaði Otegi eftir afvopnun ETA, einna fyrstur aðskilnaðarsinna. Hann var svo einn aðalmaðurinn í friðarviðræðum ETA við spænsk stjórnvöld á árunum 2006 og 2007.

ETA hefur enn ekki formlega afvopnast. Hreyfingin boðaði þó algjör endalok vopnaskaks mánuði eftir að Otegi var dæmdur 2009.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV