Fágætur janúarfellibylur stefnir á Asoreyjar

15.01.2016 - 04:05
Mynd með færslu
Alex stefnir á Asoreyjar, en mjakast þaðan áfram norður og vestur, í átt að Grænlandi. Heldur mun þó draga úr honum á leiðinni, ef spár ganga eftir.  Mynd: National Hurricane Center
Fellibylur hefur myndast á miðju Atlantshafi og nálgast nú Asoreyjar jafnt og þétt. Hann hefur fengið nafnið Alex. Vindhraðinn hefur þegar náð 140 kílómetrum á klukkustund, nærri 39 metrum á sekúndu, og gæti enn átt eftir að aukast. Asoreyjafólk hefur verið varað við allt að átján metra ölduhæð og vindhviðum upp á 45 metra á sekúndu þegar bylurinn skellur á eyjunum síðar í dag. Afar óvenjulegt er að fellibyljir myndist á þessum slóðum á þessum árstíma.

Alex er sá fyrsti sem þarna hefur myndast í janúarmánuði síðan 1938, og aðeins sá fjórði frá því mælingar hófust, 1851. Um leið og Alex ólmast yfir Atlantshafi sækir hitabeltisstormurinn Pali í sig veðrið á Kyrrahafi. Slíkir stormar eru einnig fátíðir þar á þessum árstíma, þótt ekki séu þeir jafn sjaldséðir þar og á Atlantshafinu.

Veðurfræðingar segja skýringanna á báðum þessum stormum - og reyndar mörgum öðrum á undan þeim - að leita í óvenju heitum yfirborðssjó og fleiru sem tengt er veðurfyrirbærinu El Niño, sem er óvenju öflugt í ár.

El Niño skýtur upp kollinum á tveggja til sjö ára fresti, og mun ekki hafa verið jafn öflugur og nú síðan um miðja síðustu öld. Hann veldur auknum öfgum í veðurfari, sem birtast í óvenju mörgum og öflugum stormum, þurrkum á stórum svæðum í S-Ameríku, úrhelli og flóðum á öðrum stöðum álfunnar og þó enn frekar í Mið-Ameríku og suðurhluta Norður-Ameríku, auk þess sem hann er sagður ýta undir og ýkja óveður víða á Kyrrahafi og vestur til Asíu.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV