Fær ekki tryggingafé upp á 10 millljónir

04.02.2016 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Íbúðalánasjóð af kröfu fasteignafélagsins Gjóna sem vildi fá endurgreiddar tíu milljónir sem félagið greiddi í tryggingafé. Fasteignafélagið ætlaði að kaupa 154 eignir af sjóðnum og nam kaupverðið 1,9 milljörðum.

Eignirnar voru teknar úr sölu eftir að skrifað var undir viljayfirlýsingu í apríl 2014. Forsvarsmaður Íbúðalánasjóðs sagði fyrir dómi að verkefnið hefði verið kynnt þannig fyrir sjóðnum að fjármagn fyrir kaupunum væri tryggt en ekkert varð af sölunni þegar fjármögnun gekk ekki eftir. 

Fasteignafélagið taldi að Íbúðalánasjóður hefði brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf með því að fara fram á tryggingafé.  Íbúðalánasjóður hefði brotið tillitsreglu samningaréttar og sjóðurinn hefði þar að auki ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína varðandi eignasafnið - fasteignir á Reyðarfirði og Egilsstöðum hefðu verið óveðhæfar og það hefði hamlað fjármögnun.

Héraðsdómur rekur í dómi sínum að fasteignafélagið hafi ítrekað fengið frest til að ljúka samningsgerð þegar illa gekk að fjármagna kaupin - það sýni gögn málsins.  Þá hafi engin gögn verið lögð fram um fasteignirnar á Austurlandi hafi verið óveðhæfar - sú staðhæfing sé því ósönnuð.

Héraðsdómur fellst enn fremur á þær skýringar Íbúðalánasjóðs um að endurgreiða ekki tryggingaféð. Það hafi verið nokkur áhætta að taka þessar fasteignir úr sölumeðferð  hjá fasteignasölum þegar skrifað var undir viljayfirlýsinguna. Sjóðurinn hefði getað orðið af fasteignasölum af þessum ástæðum og fjárhagslegu tjóni.

Dómurinn telur að Íbúðalánasjóði hafi verið heimilt að fara fram á tryggingafé - hún hafi verið hugsuð fyrir áframhaldandi þátttöku í söluferlinu. Ekki sé hægt að fallast á að Íbúðalánasjóður hafi ekki sýnt fullt tillit við samningsgerðina og eftirmála né að Íbúðalánasjóður hafi ekki upplýst fasteignafélagið um ástand fasteigna. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV